Innlent

Fjögurra vikna gæsla vegna gruns um manndráp

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá vettvangi í Árnessýslu þann 31. mars.
Frá vettvangi í Árnessýslu þann 31. mars. Vísir/Magnús Hlynur
Héraðsdómur Suðurlands féllst síðdegis á kröfu Lögreglustjórans á Suðurlandi um fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir karlmanni á sjötugsaldri. Maðurinn er grunaður er um að hafa orðið bróður sínum að bana á bænum Gýgjarhóli II í uppsveitum Árnessýslu að morgni laugardagsins 31. mars.

Bráðabirgðaniðurstöður krufningar á líki mannsins gáfu til kynna að áverkar hefðu verið á líkinu sem leitt hefðu manninn til dauða. Hinn grunaði, ábúandi á Gýgjarhóli II, tilkynnti um lát hans á laugardagsmorgun.

Maðurinn var upphaflega úrskurðaður í viku gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Nú er varðhaldið á grundvelli almannahagsmuna og til fjögurra vikna. Héraðsdómur metur almannahagsmuni í húfi þegar maður er talinn hættulegur öðrum.

Verjandi mannsins, Ólafur Björnsson, segir í samtali við Vísi að ekkert nýtt hafi komið fram í yfirheyrslum yfir manninum undanfarna daga. Hann ber fyrir sig minnisleysi vegna drykkju. 

Þriðji bróðirinn var einnig á staðnum en fór að sofa á undan hinum bræðrunum. Hann var upphaflega handtekinn en sleppt að lokinni yfirheyrslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×