Innlent

Ekki úrskurðað um hæfi Arnfríðar í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón H. B. Snorrason, saksóknari, og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður, þegar krafan var tekin fyrir í Landsrétti fyrr í mánuðinum.
Jón H. B. Snorrason, saksóknari, og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður, þegar krafan var tekin fyrir í Landsrétti fyrr í mánuðinum. vísir/eyþór

Landsréttur mun ekki úrskurða um hæfi Arnfríðar Einarsdóttur, dómara við réttinn, í dag að sögn Björns L. Bergssonar, skrifstofustjóra Landsréttar. Býst hann við því að úrskurðurinn verði kveðinn upp fljótlega eftir helgi.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður, gerði þá kröfu fyrr í mánuðinum að Arnfríður myndi víkja sæti í máli sem áfrýjað hefur verið til réttarins. Með kröfunni lætur Vilhjálmur reyna á gildi dóma sem kveðnir eru upp af þeim dómurum Landsréttar sem ekki voru á meðal þeirra sem dómnefnd mat hæfasta í aðdraganda skipunar í Landsrétt.

Hæstiréttur hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að skipun umræddra dómara hafi verið ólögmæt en ekki hefur verið skorið úr um hvort hún veldur því að dómar sem umræddir dómarar dæma verði ógildir. Fastlega má búast við því að úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar synji Landsréttur kröfu Vilhjálms.

Verði hins vegar fallist á kröfuna, hvort heldur er fyrir Landsrétti eða Hæstarétti, þarf að hefja skipunarferli upp á nýtt vegna þeirra fjögurra dómara sem dómsmálaráðherra skipaði í andstöðu við tillögu dómnefndarinnar.


Tengdar fréttir

Umferðarlagabrot gæti skekið dómskerfið á ný

Mál um umferðarlagabrot sem gæti valdið usla í dómskerfinu tekið fyrir í Landsrétti í dag. Ekki í fyrsta sinn sem slíkt brot gæti haft víðtæk áhrif á dómskerfið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.