Innlent

Of há gildi gerla í neysluvatni í Reykjavík

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tekið er fram að talið er að neysluvatn sé þrátt fyrir þetta öruggt.
Tekið er fram að talið er að neysluvatn sé þrátt fyrir þetta öruggt. vísir/getty
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur fengið upplýsingar frá Veitum að niðurstöður rannsókna á hluta vatnssýna, sem fyrirtækið tók í borholum þess síðastliðinn föstudag sýni of há gildi heildargerlafjölda við 22 gráður

Í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur segir að ekki sé um að ræða niðurstöður úr opinberu eftirliti heilbrigðiseftirlitsins með neysluvatni úr dreifikerfi Reykvíkinga. Sýnatakan sé vegna innra eftirlits vatnsveitunnar með vatni í borholum á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk og hluti af vöktun þess þegar hætta er á asahláku og miklum rigningum.

Þá segir einnig að það sé niðurstaða Heilbrigðiseftirlitsins, Matvælastofnunar og sóttvarnarlæknis að þrátt fyrir þetta sé neysluvatnið öruggt og almenningur þurfi ekki að grípa til neinna sérstakra aðgerða vegna þess.

Ástæðurnar megi rekja til þess að sérstakar veðuraðstæður hafi leitt til þess að vatnið í hluta af borholunum hafi ekki staðið ýtrustu gæðakröfur. Heilbrigðiseftirlitið tók í dag sýni á nokkrum stöðum úr dreifikerfinu til að kanna gæði neysluvatnsins þar og mun áfram fylgjast með gæðum þess.

Stutt er síðan íbúum á ýmsum stöðum höfuðborgarsvæðisins var ráðlagt að sjóða neysluvatn um tíma eftir að jarðvegsgerlar höfðu mælst í drykkjarvatni á höfuðborgarsvæðinu vegna mikillar hlákutíðar.


Tengdar fréttir

Jarðvegsgerlar í kalda vatninu í Reykjavík

Í varúðarskyni mælir Heilbrigðiseftirlitið með því að neysluvatn í vissum hverfum borgarinnar sé soðið ef um neytendur er að ræða sem eru viðkvæmir t.d. með lélegt ónæmiskerfi, ungabörn, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×