Innlent

Útbreidd veirusýking herjar á íslenska tómata

Atli Ísleifsson skrifar
Sjúkdómarnir geta valdið miklum afföllum í tómatrækt.
Sjúkdómarnir geta valdið miklum afföllum í tómatrækt. Vísir/stefán
Tveir plöntusjúkdómar greindust í haust í tómatrækt hérlendis og er annar þeirra útbreiddur. Sjúkdómarnir geta valdið miklum afföllum í tómatrækt.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að um sé að ræða veiruna Pepino Mosaic Virus (PepMV) og spóluhnýðissýkingu (Potato Spindle Tuber Viroid - PSTVd).

„Niðurstöður rannsóknar Matvælastofnunar gefa til kynna að veirusmitið af völdum PepMV eigi sér sameiginlegan uppruna og sé útbreitt meðal tómatræktenda hérlendis.

Sjúkdómarnir eru ekki skaðlegir fólki en geta valdið miklum afföllum í tómatrækt. Matvælastofnun veit ekki til þess að veiran eða veirungurinn hafi áður náð fótfestu í garðyrkju hérlendis.

Við rannsókn voru tekin 22 sýni til hraðprófunar, af þeim voru 12 jákvæð fyrir PepMV veirunni. Ekki var skimað fyrir spóluhnýðissýkingu í hraðprófun. Einnig voru 16 ný sýni frá sömu ræktendum send til frekari rannsóknar, af þeim voru níu jákvæð fyrir PepMV og eitt jákvætt fyrir spóluhnýðissýkingu. Sex ræktendur höfðu þegar tæmt hús þegar sýnataka fór fram og ekki fengust sýni frá þeim. Spóluhnýðissýking greindist hjá tveimur til viðbótar síðasta haust við sýnatökur ræktenda,“ segir í fréttinni.

Bundnir við Suðurlandsundirlendið

Niðurstöður rannsóknar sýni að sýkingarnar séu bundnar við Suðurlandsundirlendið en ekki sé hægt að útiloka frekari útbreiðslu í öðrum landshlutum. Þá segir að spóluhnýðissýking geti borist í kartöflur með tilheyrandi afföllum og hefur Matvælastofnun beint því til kartöfluræktenda að gæta að mögulegu krosssmiti frá einstaklingum og aðföngum sem borið gætu smit úr tómatrækt.

Nánar má lesa um málið á vef Matvælastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×