Davíð er óumdeilt áhrifaríkasti stjórnmálamaður landsins á síðari hluta síðustu aldar. Hann var borgarstjóri, formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri og nú síðast ritstjóri Morgunblaðsins.

Kári segir samskipti þeirra Davíðs ekki hafa verið mikil í seinni tíð en á milli þeirra séu þó sterkar og hlýjar taugar. Þeir hafi alla tíð verið á öndverðum meiði í stjórnmálum. Kári hafi alltaf verið sósíalisti og aldrei farið leynt með það. Pólitískur ágreiningur hafi þó aldrei truflað samskipti þeirra.
Sjá einnig: Gríðarleg tilhlökkun vegna afmælis Davíðs
„Davíð Oddsson hefur orð á sér fyrir að vera heldur ósveigjanlegur í pólitík og á köflum öfgakenndur,“ segir Kári en bendir á að vinir Davíðs þekki hann sem traustan vin. „Hann er afskaplega trúr vinum sínum. Hann svíkur þá aldrei og hefur á köflum beygt reglur fyrir þá. Hann hefur gamaldags afstöðu til hollustu og fylgir ákveðnum heiðursreglum út í ystu æsar.“

„Hann er í grunninn fyrst og fremst sögumaður. Það er ekki alveg það sama og skáld. Hann er ofboðslega skemmtilegur sögumaður. Tveir bestu sögumenn sem ég hef kynnst eru faðir minn, heitinn, og Davíð. Hann er ótrúlega lipur og skemmtilegur og þeir segja sögur um margt á svipaðan hátt, faðir minn og Davíð.“
Afmælisdagurinn 17. janúar er um margt merkilegur og ljóst má vera að það eru engar geðleysur sem koma í heiminn þennan dag en Davíð deilir afmælisdegi með ekki ómerkari harðjöxlum en glæpaforingjanum Al Capone og hnefaleikagoðsögninni Muhammad Ali.
Með Ali í huga segir Kári: „Fyrirsögnin á þessu á auðvitað að vera: „Float like a butterfly, sting like a bee.“ Þannig nákvæmlega er Davíð Oddsson.“