Innlent

Appelsínugul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu í fyrramálið

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám og senda ung börn ekki ein í skólann.
Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám og senda ung börn ekki ein í skólann. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið á morgun vegna mikils hvassveðurs. Búist er við suðaustan átt 18-25 m/s í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins í fyrramálið þegar fólk er að leggja af stað í skóla og vinnu.

Einnig verður mjög hvasst á leiðum til borgarinnar, til dæmis á Kjalarnesi, Hellisheiði og á Reykjanesbraut. Hvassast verður á Kjalarnesi undir morgun og geta hviður náð 38 m/s.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið frá sér tilkynningu vegna veðursins. Þar segir að skólar verði opnir en að mikilvægt sé að foreldrar gæti þess að börn yngri en 12 ára fari ekki ein í skóla, sérstaklega í efri byggðum og þar sem börn þurfi að fara yfir opin svæði á leið sinni í skóla.

Gul viðvörun er víðs vegar annars staðar á landinu, á Suðurlandi, við Faxaflóa og Breiðafjörð, á Vestfjörðum, Suðausturlandi og á miðhálendinu.

Búast má við talsverðri eða mikilli rigningu suðaustanlands á morgun og slæmu ferðaveðri og hálku á vegum. Einkum er búist við snörpum hviðum undir morgun á Reykjanesi, undir Eyjafjöllum og við fjöll við sunnanverðan Faxaflóa.

Veðurhorfur á landinu
Gengur í suðaustan 15-25 m/s, fyrst SV-lands seint í kvöld og nótt með rigningu, hvassast við fjöll, en hægara NA-til. Talsverð eða mikil rigning SA-lands á morgun, en lengst af úrkomulítið nyrðra. Suðaustan 8-13 og skúrir eða slydduél SV-til síðdegis, en áfram hvassviðri og rigning eystra. Hiti víða 2 til 7 stig að deginum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Hæg suðlæg eða breytileg átt og rigning eða slydda með köflum N- og A-lands, en annars skýjað með köflum og stöku skúrir eða él. Hiti kringum frostmark.

Á fimmtudag:
Vaxandi suðaustanátt, 15-23 m/s undir kvöld með talsverðri rigningu víða á landinu, en lengst af þurrt á N-landi. Hlýnar í veðri.

Á föstudag:
Suðaustanhvassviðri eða -stormur og talsverð eða mikil rigning á S-verðu landinu, en úrkomuminna fyrir norðan. Hiti 2 til 7 stig.

Á laugardag:
Útlit fyrir hvassa sunnan- og suðvestátt með skúra- eða éljahryðjum, en úrhellisrigningu um kvöldið. Úrkomuminna NA-til á landinu. Hiti 0 til 5 stig.

Á sunnudag:
Líklega áfram sunnanhvassviðri með rigningu eða slyddu A-til, en skúrum eða éljum fyrir vestan og kólnandi veður.

Á mánudag:
Sennilega suðaustlæg eða breytileg átt með skúrum eða éljum víða um land.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.