Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, ber veðrið nú saman við fyrri hlýindi á jólum í færslu á Facebook-síðu sinni. Hann segir að sjálf lægðin fari fyrir vestan landið án þess að valda stormi hér. Þó muni hvessa nokkuð víða sunnan- og vestanlands um tíma síðdegis í dag.
Fyrir utan hlýindi og leysingu á jóladag árið 2005 þegar hitinn var níu stig í Reykjavík og tíu sig á Akureyri í hádeginu og eindregna þíðu á jóladag árið 1997 segir Einar að leita þurfi aftur til 1972 til að finna sambærilegan hita á jóladag.
„Þau jól vekja reyndar upp allt aðrar minningar margra sem komnir eru á miðjan aldur og bjuggu þá sunnan- eða suðvestanlands vegna óveðurs sem gerði nokkrum dögum fyrir jól og hafði víðtækar samfélagslegar afleiðingar. Olli ótta, kapphlaupi og í sumum tilvikum örvæntingu,“ skrifar Einar.
Nær öll Reykjavík varð rafmagnslaus eftir ofsaveður með þrumum og eldingum 20. desember árið 1972. Eldingu sló þá niður í Búrfellslínu þannig að eldingavarar við Búrfellsvirkjun eyðilögðust. Sló þá Sogsvirkjun út og þar með rafmagni í höfuðborginni. Daginn eftir slitnaði Búrfellslína 1 í óveðrinu og olli töluverðu tjóni í álverinu í Straumsvík. Grípa þurfti til rafmagnsskömmtunar í Reykjavík í kjölfarið.
Eldingarnar kveiktu auk þess í tveimur bæjum í Rangárvallasýslu eins og Morgunblaðið rifjaði upp í frétt um aldamótin.