Nokkrir sólarhringir eru í að Skaftá nái eðlilegu rennsli á ný. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Þar segir að rennsli við Sveinstind hafi farið lækkandi frá því á miðnætti og mælist nú um 1.300 rúmmetrar á sekúndu, þó að líklegt sé talið að raunverulegt rennsli árinnar sé nokkru meira.
„Rennsli í Eldvatni við Ása hefur verið í hámarki síðan um kl. 9 í morgun og vatn flæðir út í Eldhraun. Búast má við að það dragi jafnt og þétt úr hlaupinu en að nokkrir sólarhringar séu í að Skaftá nái eðlilegu rennsli á ný.
Þegar skoðuð eru gögn úr óróamælum Veðurstofunnar virðist sem að Vestari-Skaftárketill sé einnig að tæmast. Óvenjulegt er að katlarnir hlaupi báðir á sama tíma.
Tilkynnt hefur verið um brennisteinslykt á Suðausturlandi, t.d. í Meðallandi og í Öræfum. Einnig fannst sterk lykt vestan Skaftárjökuls í eftirlitssflugi með Landhelgisgæslunni í gær. Lyktin getur borist langar vegalengdir og var m.a. tilkynnt um brennisteinslykt í Noregi í Skaftárhlaupi 2015,“ segir í tilkynningunni.