Lífið

Telur sig hafa verið gerðan hornreka í Hollywood eftir að hafa verið áreittur kynferðislega

Birgir Olgeirsson skrifar
Brendan Fraser.
Brendan Fraser.
Leikarinn Brendan Fraser segist hafa verið misnotaður kynferðislega af valdamiklum manni í Hollywood og að það hafi gert hann hornreka í bransanum.

Fraser átti ágætis velgengni að fagna í Hollywood á tíunda áratug síðustu aldar og á fyrstu árum nýs árþúsunds.

Hann segir frá því í viðtali við tímaritið GQ að árið 2003 hafi sigið á ógæfuhliðina eftir að hann sótti hádegisverðarboð samtaka erlendra blaðamanna í Hollywood. Þetta félag afhendir Golden Globe-verðlaunin á hverju ári en Fraser segir Philip Berk, fyrrverandi formann samtakanna, hafa áreitt hann kynferðislega í þessu hádegisverðarboði með því að grípa um afturenda Fraser eftir að hafa heilsað upp á hann. 

Fraser segist hafa orðið fyrir miklu áfalli, fundið til vanlíðunar og rokið heim og sagt eiginkonu sinni frá þessu atviki.  Fraser segir eftirköst þessa atviks hafa verið afdrifarík fyrir sig, hann varð þunglyndur og kenndi sjálfum sér um það sem gerðist. Hann dró sig til hlés og vill meina að kvikmyndabransinn í Hollywood hafi snúið baki við honum.

Hann hélt um tíma að hann hefði verið settur á svartan lista af félagi erlendra blaðamanna í Hollywood því honum var sjaldan boðið á Golden Globe-hátíðina eftir þetta atvik.

Philip Berk hefur látið hafa eftir sér að hann hefði í raun verið að grínast þegar hann greip í afturenda Frasers. Hann hafnar þeim ásökunum að um áreitni hafi verið að ræða og neitar því alfarið að hann hafi komið því í kring að Fraser yrði settur út í kuldann í Hollywood

Fraser er hvað þekktastur fyrir leik í Mummy-myndunum 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×