Innlent

Þorsteinn vill afnema aldurshámark í starfsmannalögum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ber að segja ríkisstarfsmönnum upp frá og með næstu mánaðarmótum eftir að þeir ná 70 ára aldri. Þannig eru menn skyldaðir í starfslok jafnvel þótt þeir hafi ennþá heilsu, getu og þrótt til að starfa áfram.  

Þorsteinn Víglundsson, félagsmála- og jafnréttisráðherra, sagðist í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag vilja breyta þessum ákvæðum í starfsmannalögum.

„Þessi löggjöf er löngu úr sér gengin og orðið tímabært að breyta þessu. Það á að afnema svona aldurshámörk eins og þarna er að finna. Það eru ekki nein slík ákvæði að finna á almenna vinnumarkaðnum, þetta á eingöngu við um þann opinbera þó að vissulega í ákveðnum starfsgreinum sé kveðið á um ákveðinn hámarksaldur. Það er því nauðsynlegt að breyta þessu, það er í takt við það að við lifum lengur og betur og fólk á að geta notað og nýtt starfskrafta sína áfram ef það vill.“

Þorsteinn segir að annars vegar sé frumvarp í þinginu sem bannar mismunun á vinnumarkaði. Fari það í gegn sé nauðsynlegt að afnema ákvæðin um 70 ára starfslok úr starfsmannalögunum.

„Jafnframt erum við að vinna að því að hækka frítekjumörk á atvinnutekjur ellilífeyrisþega og samhliða því munum við koma fram með lagabreytingu til að afnema þetta ákvæði úr lögum.“

Þorsteinn segist reikna með frumvarpi til breytinga á starfsmannalögum strax í haust.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×