Mikil gleði braust út á Facebook þegar leit að eiganda hálsmens bar árangur.
Fyrir tæpum sólarhring birti Hera Björk Þormóðsdóttir tvær myndir af hálsmeni þar sem meðal annars má sjá áletrunina „mom“ og „dad“. Og svohljóðandi skilaboð fylgdu:
„Hæhæ, ég er að vinna í túristabúð í Reykjavík á Laugaveginum sem heitir I don't speak Icelandic. Við fundum þetta hálsmen í búðinni og virðist þetta vera kærkominn gripur. Þess vegna langar mig að reyna á mátt facebook og aðra samfélagsmiðla og reyna að finna eigandann. Endilega deilið þessu!“
Ekki stóð á viðtökunum, skeytið fór um netheima á ógnarhraða og tæplega tvö þúsund manns deildu myndinni. Og eigandinn kom í leitirnar. Ashley Fusco, frá Pittsburg, Pennsylvaniu í Bandaríkjunum, kann sér ekki læti, að hafa endurheimt þennan persónulega grip og netið sýndi að það þekkir engin landamæri.