Erlent

Sykurlausir gosdrykkir tengdir við aukakíló

Kjartan Kjartansson skrifar
Þeir sem eru í aðhaldi reyna gjarnan að velja gosdrykki með sætuefnum frekar en sykraða drykki til að fækka hitaeiningunum.
Þeir sem eru í aðhaldi reyna gjarnan að velja gosdrykki með sætuefnum frekar en sykraða drykki til að fækka hitaeiningunum. Fréttablaðið/Valli
Fólk sem drekkur gosdrykki með gervisætuefnum jók frekar líkamsmassastuðul sinn en hitt í rannsókn alþjóðlegs hóps vísindamanna á sætuefnum. Þá var hópurinn líklegri til að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma.

Vísindamennirnir tóku saman niðurstöður tuga rannsókna sem gerðar hafa verið á heilsufarsáhrifum gervisætuefna til að reyna að átta sig á hvort finna mætti rauðan þráð í þeim, að því er segir í umfjöllun Washington Post.

Gosdrykkir með sætuefnum eins og aspartam í stað sykurs hafa verið afar vinsælir hjá fólki sem reynir að fækka aukakílóunum. Þar sem drykkirnir eru sykurlausir eru færri hitaeiningar í þeim en hefðbundnum sykruðum gosdrykkjum.

Niðurstaða vísindamannanna er hins vegar sú að það eru ekki aðeins hitaeiningarnar sem skipta máli. Rannsóknirnar sem þeir skoðuðu bentu til verulegra tengsla á milli gervisætuefna og hóflegrar aukningar í líkamsþyngd, líkamsmassastuðli og mittismáli.

Tengslin gætu verið öfug

Ekki er þó ljóst hvers vegna þessi tengsl virðast vera til staðar. Meghan Azad, frá Háskólanum í Manitoba, sem tók þátt í samantektinni, segir hugsanlegt að líkaminn bregðist við sætuefninum eins og sykri eða að einhver líkamleg breyting eigi sér stað af völdum sætuefnanna.

Þá geti neysla drykkjanna haft áhrif á hugsunarhátt þeirra sem neyta þeirra. Þannig gætu þeir valið hitaeiningaríkara nammi en ella vegna þess að þeir neyta ósykraðra gosdrykkja.

Azad telur einnig hugsanlegt að orsakatengslin séu öfug. Þannig velji fólk sem er þegar að fitna af öðrum ástæðum oft matvæli með gervisætuefnum og aðrar rannsóknir hafa sýnt að fólk sem fer í megrun og er líklegra til að drekka sykurlausa gosdrykki grennist fyrst en bæti svo aftur á sig.

Setur Azad þann fyrirvara við samantekt sína og félaga sinna að rannsóknirnar sem þau skoðuðu voru gjarnan á fólki sem var að reyna að grennast eða þjáðist af sjúkdómum eins og háum blóðþrýstingi.

Hún telur frekari rannsókna þörf til að varpa ljósi á orsakatengslin en bendir fólki á að gera ekki sjálfkrafa ráð fyrir því að matvæli með sætuefnum séu endilega hollari en önnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×