Innlent

Dæmdur fyrir að taka dóttur sína kverkataki í verslun

Birgir Olgeirsson skrifar
Dómurinn taldi sannað að maðurinn hefði tekið dóttur sína kverkataki.
Dómurinn taldi sannað að maðurinn hefði tekið dóttur sína kverkataki. Vísir/GVA
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann til tveggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir að hafa veist að dóttur sinni í verslun í Reykjavík. Árásin átti sér stað í fyrra en dóttir mannsins var við vinnu í versluninni þegar hann tók hana kverkataki um hálsinn með þeim afleiðingum að dóttirin hlaut eymsli í vöðvum beggja vegna við háls og verk í hálsi.

Fyrir dómi sagðist maðurinn kannast við að hafa komið á vinnustað dóttur hans. Hann sagðist hafa verið í miklu uppnámi því dóttirin hefði hringt í hann kvöldi fyrir atvikið og hellt sér yfir hann. Hún hafi sagt við hann að hann ætti ekki að skipta sér að hennar málum. Hann hafi því ákveðið að fara á vinnustað hennar daginn eftir og ræða við hana. Þegar þangað var komið hafi hann séð hana og gengið rakleiðis til hennar. Kannaðist hann við að hafa verið í miklu uppnámi og misst stjórn á sér.

Hann hafi gripið í fatnað hennar í bringuhæð. Hann kannaðist einnig við að hafa gripið í hálsmál hennar og haldið henni þannig nokkra stund. Hann hafi svo sleppt og farið út. Dóttirin hans hafi farið á eftir honum og hótað að hringja á lögregluna. Maðurinn sagðist ekki hafa hótað henni lífláti en hann hafi verið í uppnámi vegna þess hvernig hún hefði komið illa fram við eiginkonu hans og hafi hann því verið hávær. Hann kvaðst hafa tekist á við dóttur sína í gegnum tíðina en aldrei hafi komið til handalögmála milli þeirra áður.

Dóttirin sagði föður sinn hafa augljóslega verið reiður vegna samskipta hennar við eiginkonu hans. Hann hafi gripið fast um háls hennar með annarri hendi og gengið nokkur skref með hana í því taki. Hann hafi hótað henni lífláti og hún hafi sagt við hann að „gera það bara“ en síðan hafi hún ekki mátt mæla.

Dómurinn taldi sannað að maðurinn hefði tekið dóttur sína kverkataki. Var litið til samhljóma framburðar dótturinnar, vitnis og læknis. Hann var sýknaður af ákæru um að hafa ýtt dóttur sinni upp að vegg og jafnframt sýknaður af ákæru um að hafa hótað henni lífláti þar sem hún hafi verið ein til frásagnar um það atriði.

Auk skilorðsbundinnar fangelsisvistar var maðurinn dæmdur til að greiða dóttur sinni 300 þúsund krónur. Maðurinn var dæmdur til að greiða skipuðum verjanda sínum 370 þúsund krónur í málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns dóttur sinnar, 210 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×