
Í bréfinu segjast þær bera fullt traust til úrskurðarnefndar kirkjunnar og vilja að sinni bíða með að tjá sig efnislega um málið. Vilja konurnar leggja áherslu á að kirkjan eigi að vera öruggur griðastaður þar sem ofbeldi er ekki liðið og að þessu ofbeldi muni linna.
Greinargerð lögmanns sr. Ólafs var birt í fjölmiðlum um helgina. Vilja konurnar fimm meina að gert sé afar lítið úr þeim meintu brotum sem sr. Ólafur er sakaður um. „Í yfirlýsingu lögmanns sr. Ólafs, sem birt hefur verið í fjölmiðlum, hefur því verið haldið fram að atferli hans hafi ekki verið kynferðisleg áreitni, heldur koss á kinn. Brotin sem hann er kærður fyrir eru mun alvarlegri,“ segir í bréfi Þyríar Steingrímsdóttur, lögmanns kvennanna. „Umbjóðendur mínir harma að sr. Ólafur hafi farið til fjölmiðla og veitt villandi og um margt ranga mynd af málinu.“
Á forsíðu Fréttablaðsins þann 21. september var sagt frá því að sr. Ólafur hafi verið sendur í leyfi vegna ásakana um kynferðislega áreitni. Mál gegn honum hafi verið rakið fyrir úrskurðarnefnd kirkjunnar árið 2010. Ólafur neitaði í þeirri frétt að um kynferðislega áreitni hefði verið að ræða.
Fréttin hefur verið uppfærð.