„Þetta er plata sem ég hef verið að vinna að í frekar langan tíma, átakanlegt verkefni sem ég þurfti að klára. Það var aðallega peningaleysi sem olli því að þetta tók svona langan tíma – það kostar að fara í stúdíó, og svo bara lífið, lífið tekur meiri tíma heldur en að gera tónlist – tónlist er ekki söluvæn vara í dag og er alltaf á kantinum,“ segir Andri Ásgrímsson tónlistarmaður en hann ásamt Haraldi Þorsteinssyni sendi frá sér plötuna Yfir djúpin dagur skín. Þeir starfa sem hljómsveitin RIF en hafa þó ýmislegt brallað í tónlistinni gegnum tíðina – Andri hefur lengi spilað með Leaves og með Haraldi í hljómsveitinni Náttfara.
„þetta er dálítið þjóðleg plata – ég er að syngja á íslensku. Það var eiginlega konseptið, ég hef aðallega verið í „instrumental“ tónlist; Náttfara og svo gerði ég sólóplötu 2009 sem hét Orrustan um Esjuna sem var bara „instrumental“. Svo þetta var smá „challenge“ fyrir mig, að fara út í þennan anga tónlistar og syngja á íslensku.
Ég var að gera lög við texta eftir Stein Steinarr og út frá því fór ég að gera eigin texta. Þannig að þetta var svolítið spennandi á tímabili en síðan var þetta sett í skúffu. En núna er þetta loksins komið.“
RIF spilar í Lucky Records í dag klukkan fimm. Plötuna má kaupa á geisladisk og vínyl í Smekkleysu, Lucky Records og Kaffi Vínyl auk þess sem hlusta má á hana á Spotify og iTunes.

