„Þetta er ansi há tala og það er klárt að það leikur vafi á því hvort borgarstjóri hafi haft heimild til að taka þessa ákvörðun. Það er svo augljóst að þetta var áróðursbæklingur, einkum og sér í lagi fyrir Samfylkinguna þar sem verið er að tala um uppbyggingaráform þeirra,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun í borgarstjórn á þriðjudag þar sem útgáfa kynningarritsins var harðlega gagnrýnd. Bæjarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sagði óviðunandi að meirihlutinn í borginni „misnoti nú aðstöðu sína korteri fyrir kosningar og dreifi auglýsingabæklingi um glærusýningar borgarstjóra“, eins og það var orðað í bókuninni. Sjálfstæðismenn óskuðu eftir upplýsingum um kostnað við það sem þeir kölluðu kosningabækling.

Meirihlutinn benti þó á að upplýsingafundir um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík hafi verið haldnir árum saman og síðustu tvö ár hafi verið gefið út upplýsingaefni af því tilefni. Alþingiskosningarnar hefðu ekkert með þessa upplýsingamiðlun að gera.
Fréttablaðið óskaði eftir upplýsingum um kostnaðinn við prentun og dreifingu ritsins og fékk þær upplýsingar að prentun hafi kostaði 1.750 þúsund krónur og dreifing 640 þúsund. Þá fékk almannatengslafyrirtækið Athygli 2,4 milljónir fyrir skrif og uppsetningu. Alls 4.790.000 krónur.
Þá fengust þær upplýsingar hjá borginni að skrifstofa eigna- og atvinnuþróunar hafi látið vinna bæklinginn. Svipaður bæklingur hafi verið unninn í fyrra fyrir sama fund sem haldinn var á sama tíma og nú. Tímasetningin hafi verið ákveðin í vor og sömuleiðis kynningaruppleggið, þegar fátt benti til að gengið yrði til alþingiskosninga á árinu.