Innlent

Foreldrar langveikra barna fá desemberuppbót

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ásmundur Einar Daðason er félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason er félags- og jafnréttismálaráðherra. Vísir/Eyþór
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur undirritað reglugerð sem kveður á um að foreldrar barna sem eru langveik eða alvarlega fötluð fái greidda desemberuppbót, að hámarki 53.123 kr.

Greint er frá uppbótinni á vef Stjórnarráðsins en þar segir að samkvæmt reglugerðinni á foreldri langveiks eða alvarlega fatlaðs barns, sem hlotið hefur greiðslur í desember 2017 samkvæmt lögum þar að lútandi nr. 22/2006, rétt á desemberuppbótinni. Uppbótin er hlutfallsleg þannig að foreldri sem fengið hefur mánaðarlega greiðslu samkvæmt lögunum alla tólf mánuði ársins fær fulla desemberuppbót, þ.e. 53.123 kr.

Þá á foreldri sem hefur fengið greiðslur skemur en tólf mánuði á árinu 2017 á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót í samræmi við þann tíma sem foreldrið hefur fengið greiðslur á árinu samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslu desemberuppbótar samkvæmt reglugerðinni, sem sögð er nýmæli, og verður hún greidd út eigi síðar en 18. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×