Innlent

Einn alvarlega særður eftir stunguárás á Austurvelli

Kjartan Kjartansson skrifar
Átökin eru sögð hafa átt sér stað fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli um fimm leytið í morgun.
Átökin eru sögð hafa átt sér stað fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli um fimm leytið í morgun. Vísir/GVA
Maður sem grunaður er um að hafa stungið tvo menn með hnífi fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli snemma í morgun var handtekinn í Garðabæ í morgun, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tveir menn eru sárir eftir átökin þar sem eggvopn kom við sögu, annar þeirra alvarlega.

Lögregla fékk tilkynningu um átökin um klukkan fimm í morgun, að sögn RÚV sem sagði fyrst frá átökunum í morgun. Rannsóknardeild lögreglunnar er nú með málið í til rannsóknar.

Mennirnir tveir hlutu áverka á fótum, baki og kviði og voru fluttir á bráðamóttöku Landspítalans. Lögreglan segir að maðurinn sem var handtekinn hafi flúið af vettvangi. Vitni gátu hins vegar gefið greinargóða lýsingu á honum og var hann handtekinn skömmu síðar.

Hann er sagður eiga sakaferil að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×