Innlent

Úrskurðaður í tólf daga gæsluvarðhald

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Átökin eru sögð hafa átt sér stað fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli um fimm leytið í morgun.
Átökin eru sögð hafa átt sér stað fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli um fimm leytið í morgun. Vísir/GVA
Karlmaður var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í tólf daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.

Maðurinn, sem er íslenskur og á þrítugsaldri, er grunaður um að um að hafa stungið tvo menn með hnífi á Austurvelli í nótt. Brotaþolarnir, sem báðir eru frá Albaníu, voru báðir fluttir á bráðamóttöku Landspítalans, en annar þeirra er mjög alvarlega slasaður.

Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.vísir/Anton Brink
Í samtali við Vísi segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar, að líðan mannsins sé óbreytt.

„Hann er áfram þungt haldinn og í lífshættu,“ segir Grímur. Hinn maðurinn, sem slasaðist minna, var með áverka meðal annars á fótum, baki og kvið. 

Ekki var farið fram á lengra gæsluvarðhald yfir manninum en tólf daga, að sögn Gríms. Þá náðist einnig að yfirheyra hinn grunaða í dag en áður kom fram að erfiðlega hafi gengið að ná af manninum skýrslu vegna vímuástands.

„Núna höldum við bara áfram að yfirheyra vitni og safna gögnum,“ segir Grímur enn fremur um næstu skref rannsóknarinnar.

Stuðst við myndbandsupptökur af Austurvelli við rannsóknina

Vitni gátu gefið greinargóðar lýsingar sem leiddu til handtöku hins grunaða í Garðabæ nokkru eftir árásina á Austurvelli. Hann var vistaður í fangageymslu. 

Grímur staðfesti einnig við fréttamann Stöðvar 2 í dag að stuðst sé við myndbandsupptökur af Austurvelli frá því í morgun við rannsókn málsins en lögreglan hefur beinan aðgang að myndavélum þar. Hann sagði að einnig væri unnið að því að fá myndbandsupptökur úr öryggismyndavélum veitingastaða í nágrenninu. Þá sagði Grímur að tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi rannsakað vettvang í morgun. 

Tildrög eða ástæða árásarinnar liggur ekki fyrir. Í tilkynningu frá lögreglu segir að ekki sé unnt að veita nánari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Frétt Stöðvar 2 um árásina má horfa á í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×