Innlent

Ófeigur er haldinn stelsýki: „Hann er með hanskablæti“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Í Mosfellsbær býr kötturinn Ófeigur, sem haldinn er stelsýki, en hann er með sérstakt hanskablæti og hefur stolið tugum hanska af nágrönnum sínum. Ólöf Loftsdóttir, eigandi Ófeigs, sem var kominn með mikið samviskubit vegna fórnarlambanna, tók upp á því að setja góssið út á snúru svo að nágrannar geti sótt það.

Þrátt fyrir að vera oftast alveg rosalega ljúfur og góður glímir hann við afar sérstaka áhættuhegðun en hann stelur ýmsu frá nágrönnum sínum og kemur með heim. „Hann hefur komið með hluti sem eru augljóslega inni hjá fólki. Það er enginn sem skilur eftir nærföt úti þannig það er alveg augljóst að hann er að fara inn um glugga hjá fólki og stela,“ segir Ólöf.

Hún segir að fyrst hafi borið á þessu furðulega atferli Offa í vor. Þýfið varð alltaf meira og meira og gat hún ekki annað en reynt að ná til fórnarlamba Offa með því að hengja góssið á snúru í garðinum svo að þeir geti sótt það. 

Offi hefur sérstakan áhuga á hönskum en það er allur gangur á því hverju hann stelur. Offi er það klár, að ef hann stelur hanska einn daginn finnur hann hinn úr parinu þann næsta og kemur með heim. „Hann er náttúrulega með hanskablæti. Það er alveg ljóst. Það er blæti fyrir vinnuhönskum,“ segir Ólöf.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.