Innlent

Þingflokkur VG fundar síðdegis en óvíst með þingflokka D og B

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í gær að farið hafi verið yfir stóru málin í óformlegum viðræðum flokkanna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í gær að farið hafi verið yfir stóru málin í óformlegum viðræðum flokkanna. Vísir/Eyþór
Þingflokkur Vinstri grænna mun funda síðdegis og fara yfir óformlegar viðræður flokksins við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sem áttu sér stað í gær. Óvíst er hvort þingflokkur Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna fundi í dag.

Ljóst er að engin svör fást um hvort flokkarnir ætli í formlegar stjórnarmyndunarviðræður fyrr en eftir fund þingflokks Vinstri grænna. Samkvæmt heimildum verður fundur þingflokksins klukkan 16.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í gær að farið hafi verið yfir stóru málin í óformlegum viðræðum flokkanna. Næstu skref væru að skoða hvort hægt væri að byggja á þeim grunni og færa viðræður yfir á formlegt stig. Sú ákvörðun verði ekki tekin fyrr en eftir fund með flokki sínum.

Katrín sagðist hafa fulla trú á að félagar hennar í flokknum muni taka afstöðu til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn á málefnalegum grunni, en afar skiptar skoðanir eru á samstarfi við Sjálfstæðisflokk innan raða Vinstri grænna. Þannig sagði varaformaður Vinstri grænna, Edward Hákon Huijbens, að margt þurfi að gerast til að sátt skapist innan flokksins um samstarf við Sjálfstæðisflokk, til að mynda að Bjarni Benediktsson fái ekki ráðherrastól í nýrri ríkisstjórn.

Sagði Katrín að hún væri reiðubúin að leiða ríkisstjórn með þeim sem væru til í að vinna að markmiðum Vinstri grænna sem þau telja mikilvægust fyrir land og þjóð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×