Erlent

Kona sakar fyrrverandi Bandaríkjaforseta um að þukla á sér þegar hún var sextán ára

Kjartan Kjartansson skrifar
Bush er á nítugasta og fjórða aldursári og bundinn við hjólastól. Atvikið átti sér stað þegar hann var 79 ára gamall.
Bush er á nítugasta og fjórða aldursári og bundinn við hjólastól. Atvikið átti sér stað þegar hann var 79 ára gamall. Vísir/AFP

Sjötta konan sem sakar George H.W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að þukla á sér hefur nú stigið fram. Konan segir að Bush hafi gripið í rassinn á henni þegar hún var sextán ára gömul árið 2003.

Roslyn Corrigan segir að Bush, sem var forseti frá 1989 til 1993, hafi gripið í rassinn á sér þegar verið var að taka mynd af þeim á viðburði í höfuðstöðvum leyniþjónustinnar CIA í Texas þar sem faðir hennar vann fyrir fjórtán árum.

„Fyrstu viðbrögð mín voru alger hryllingur. Ég var mjög, mjög ráðvillt,“ segir Corrigan við tímaritið Time.

„Hvað segir unglingur við fyrrverandi forseta Bandaríkjanna? „Hey, gaur, þú ættir ekki að snerta mig svona?““ segir hún en Bush var 79 ára þegar atvikið átti sér stað.

Fimm aðrar konur hafa sakað Bush um sambærilega áreitni frá því í október. Talsmaður forsetans fyrrverandi segir hins vegar við Time að Bush „hafi það ekki í hjarta sér að geta vísvitandi valdið skaða eða þjáningu“. Hann biðji hvern þann sem gæti hafa móðgast við myndatökuna afsökunar.



Talsmaðurinn hefur áður afsakað framferði Bush með því að hann hafi „klappað konum á afturendann sem hann ætlaði á góðlátlegan hátt“. Það tengist því einnig að hann standi ekki lengur uppréttur eftir að hann varð bundinn við hjólastól árið 2012. Þegar atvikið sem Corrigan lýsir átti sér stað stóð hann þó á eigin fótum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×