Innlent

Ekki þörf á að boða neinn til Bessastaða

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Forsetinn býst við því að niðurstöður í viðræðunum verði ljósar í lok vikunnar.
Forsetinn býst við því að niðurstöður í viðræðunum verði ljósar í lok vikunnar. Vísir/Eyþór
Leiðtogar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hafa tjáð Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, að þeir séu reiðubúnir til að hefja formlegar viðræður og samninga um ríkisstjórnarsamstarf, gerð stjórnarsáttmála og skipan ráðherraembætta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forseta Íslands.

Þar segir að viðræðurnar hefjist nú þegar og þess sé að vænta að undir lok vikunnar liggi fyrir hvort þær skili tilætluðum árangri.

Af þessu má draga þá ályktun að enginn einn leiðtogi muni eiga fund með forsetanum og fá umboð til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna heldur muni flokkarnir koma sér saman um hver leiði samstarfið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði fyrr í dag að lagt væri upp með að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, verði forsætisráðherra.

Tilkynning forsetans í heild sinni:

Síðustu daga hafa leiðtogar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs rætt sín á milli um möguleika á myndun ríkisstjórnar þessara flokka. Eftir samráð við þingmenn og aðra í röðum flokkanna hafa formenn þeirra tjáð mér að þeir séu reiðubúnir til formlegra viðræðna og samninga um ríkisstjórnarsamstarf, gerð stjórnarsáttmála og skipan ráðherraembætta.

Þær viðræður munu hefjast nú þegar og er þess að vænta að undir lok vikunnar liggi fyrir hvort þær skila tilætluðum árangri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×