Innlent

Hvetja til útstrikana á Ásmundi

Birgir Olgeirsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm
Nokkrir nafntogaðir Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt málflutning Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um málefni hælisleitenda. Ásmundur sagði í grein sem birtist í Morgunblaðinu að ræða þurfi kostnað vegna hælisleitenda, en hann vill meina að þöggun ríki um málefnið og að heimafólk líði fyrir fjölgun hælisleitenda á Íslandi.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, segir á Twitter-síðu sinni að stefna Sjálfstæðisflokksins sé skýr, en þar segi að móttaka flóttamanna sé sjálfsögð.

Deilir hún um leið myndbandi þar sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir Sjálfstæðisflokkinn vilja taka á móti flóttafólki og að Ísland geri sitt til að takast myndarlega á við flóttamannavandann. Þordís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, starfandi iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Sjálfstæðisflokksins, endurbirtir tíst Áslaugar.

Ásmundur Friðriksson er í Suðurkjördæmi en, Magnús Sigurbjörnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segir þingmanninn hafa gefið kjósendum Sjálfstæðisflokksins í því kjördæmi ærna ástæðu til að strika yfir hann.

Davíð Þorláksson, fyrrverandi formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, segir í Twitter-síðu sinni að þó einhver styðji tiltekinn flokk þá leggi hann ekki blessun sína yfir allar skoðanir allra 126 frambjóðenda hans á landsvísu. Hann hvetur allt frjálslynt fólk í Suðurkjördæmi til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en strika Ásmund út.

Rafn Steingrímsson, sem hefur verið virkur í starfi Sambands ungra Sjálfstæðismanna og gaf kost á sér á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2013, segir grein Ásmundar vera algjöra þvælu og ekki í samræmi við skoðanir þess góða sjálfstæðisfólks sem hann þekkir.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir grein Ásmundar byggða á engu og einungis til þess fallna að reyna að stilla örvæntingarfullu fólki upp sem ástæðu fyrir skertum lífsgæðum hluta landsmanna.

Tónlistarmaðurinn Logi Pedro sagði á Twitter þessa grein Ásmundar gjörsamlega óafsakanlega og það væri ömurlegt af Sjálfstæðisflokknum að róa á þessi mið.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×