Innlent

Ný könnun fréttastofu: Björt og Viðreisn myndu hverfa af þingi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, við undirritun stjórnarsáttmála í janúar síðastliðnum.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, við undirritun stjórnarsáttmála í janúar síðastliðnum. Vísir/Ernir
Vinstrihreyfingin –grænt framboð yrði langstærsti flokkurinn á Alþingi ef kosið yrði nú, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis.

Vinstri græn fengju tæplega 29 prósent atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn yrði næststærsti flokkurinn með rúmlega 22 prósent. Píratar og Samfylkingin yrðu nánast jafnstór, Píratar fengju rúmlega 11 prósent en Samfylkingin fengi tæplega 11 prósent.

Þá fengi Miðflokkurinn tæplega 9 prósenta fylgi. Framsóknarflokkurinn og Flokkur fólksins væru svo álíka stórir með tæplega 6 prósenta fylgi. Viðreisn fengi 3 prósent og Björt framtíð rétt innan við 3 prósent. Í könnuninni var fólk spurt hvaða flokk það kaus í síðustu kosningum. Vísbendingar eru um að stór hluti þeirra sem kusu Bjarta framtíð í síðustu kosningum hyggist kjósa Samfylkinguna núna.

Ef þetta yrði niðurstaðan yrðu sjö flokkar með kjörna menn á Alþingi að loknum kosningum. Eina mögulega tveggja flokka stjórnin yrði mynduð af Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum. Björt framtíð og Viðreisn fengju ekki kjörna þingmenn, Vinstri græn fengju tuttugu þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn fimmtán, Píratar fengju átta þingmenn, Samfylkingin sjö og Miðflokkurinn sex þingmenn. Þá fengi Flokkur fólksins fjóra þingmenn og Framsóknarflokkurinn þrjá.

Hringt var í 1.354 manns þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki 2. og 3. október. Svarhlutfallið var því 59,1 prósent og tók 62,1 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.

Um 9 prósent sögðust ekki kjósa eða ætla að skila auðu, 11 prósent sögðust vera óákveðin og tæplega 18 prósent svöruðu ekki spurningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×