Innlent

Tveir í vikulangt gæsluvarðhald vegna stunguárásarinnar í Breiðholti

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með mikinn viðbúnað á vettvangi í gær.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með mikinn viðbúnað á vettvangi í gær. Vísir/Sindri Reyr Einarsson
Tveir menn hafa verið úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að stunguárás í heimahúsi í Breiðholti í gærkvöldi.

Einar Guðberg Jónsson lögreglufulltrúi segir í samtali við Vísi að fallist hafi verið á kröfu lögreglunnar um gæsluvarðhald í héraðsdómi fyrr í dag.

Hann segir mennina úrskurðaða í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna en þeir eru grunaðir um að hafa átt aðild að verknaðinum.

Annar þeirra var handtekinn í gærkvöldi en hinn í morgun.

Einar segir lögreglu vera að púsla atburðarásina saman og sé rannsókn málsins í fullum gangi. Lögreglan hefur yfirheyrt töluvert marga vegna málsins en Einar segist ekki vera með tölu yfir það hve margir það eru.

Spurður hvort margir hafi verið á vettvangi árásarinnar þegar hún átti sér stað segist hann ekki gefa það upp.

Maðurinn sem ráðist var á var fluttur á sjúkrahús í gærkvöldi og gekkst þar undir aðgerð. Maðurinn var stunginn í kviðarholið en lögreglan hefur lýst árásinni sem„töluverðri atlögu“ en þó er ekki talið að maðurinn sé í lífshættu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×