Fá héruð eru eins háð sauðfjárrækt og Dalir en þar eru um 90 býli sem byggja afkomu sína á sölu lambakjöts. Þegar formaður Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu er spurður um stemmninguna meðal bænda þetta haustið er svarið:
„Menn bara þegja. Menn eru kjaftstopp. Menn ræða þetta ekki. Staðan er bara alvarleg,” segir Eyjólfur Ingvi.

Hann tekur dæmi af sjálfum sér. Hann fái frá afurðastöð 360 kr. fyrir kílóið, frá ríkinu í gegnum búvörusamning 550 krónur. Á vanti 290 krónur upp í 1.200 króna framleiðslukostnað á kílóið.

Þeir standi frammi fyrir útlögðum kostnaði næsta árs.
„Ég get nefnt fyrir mig: Ég er með á gjalddaga núna í október áburð, rúlluplast og fleira. Ég er búinn að heyja fyrir næsta ár. Ég get ekki bakkað með þann kostnað. Ég er búinn að leggja út fyrir þessum kostnaði. Ég þarf að greiða hann.
En ég fæ ekkert fyrir lömbin sem ég er búinn að slátra. Ég sendi sjálfur í slátrun núna á þriðjudaginn 210 lömb. Ég fæ 5.500 krónur fyrir lambið.”

„Það getur farið af stað byggðaspírall. Segjum sem svo að það fari þrjár fjölskyldur í gjaldþrot hér á þessu svæði. Þá breytast forsendur í Búðardal fyrir rekstri skólans. Þá getur fjórða fjölskyldan farið því það er ekki grundvöllur fyrir einni kennarastöðu. Það er þessi byggðaspírall sem getur farið af stað og raun og veru enginn veit hvar endar.”

„Nei. Það getur það ekki. En ég hef hins vegar enga trú á því að þeir geri neitt. Það er mín tilfinning. Það er pólitísk upplausn í landinu og ég held að það verði ekkert gert,” segir Eyjólfur í Ásgarði.