Innlent

Nýjar göngubrýr greiða fólki leið að skriðjöklum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Brúin yfir Hólmsá á Mýrum opnar gönguleið milli Heinabergsjökuls og Fláajökuls.
Brúin yfir Hólmsá á Mýrum opnar gönguleið milli Heinabergsjökuls og Fláajökuls. Mynd/Vatnajökulsþjóðgarður.
Ferðamönnum hefur nú opnast ný gönguleið um eitt stórfenglegasta jöklasvæði landsins, með þremur göngubrúm sem reistar hafa verið yfir jökulár á Mýrum í Hornafirði. Fjallað var um verkefnið í fréttum Stöðvar 2 og rætt við Helgu Árnadóttur, aðstoðarþjóðgarðsvörð á Höfn.

Helga Árnadóttir, aðstoðarþjóðgarðsvörður á Höfn..Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Jöklasýnin sem birtist ferðamönnum af hringveginum um Mýrar í Hornafirði þykir ein sú magnaðasta á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Þrír skriðjöklar falla þarna úr Vatnajökli og niður á láglendið en þeir eru Skálafellsjökull, Heinabergsjökull og Fláajökull. Jöklarnir blasa við frá Höfn í Hornafirði en þar rekur Vatnajökulsþjóðgarður gestastofu.

Skriðjöklarnir þrír á Mýrum sjást vel frá jöklabænum Höfn. Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs er í húsinu neðst til hægri á myndinni.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Sveitarfélagið Hornafjörður og Vatnajökulsþjóðgarður hafa nú tekið höndum saman með landeigendum og Ríki Vatnajökuls um að greiða leið ferðamanna að jökulsporðunum, með göngubrúm yfir jökulárnar, sem undan þeim falla. Markmiðið er að leggja samfellda gönguleið með suðurjaðri Vatnajökuls, allt frá Skeiðarárjökli til Hornafjarðar, en sveitarfélagið fer fyrir verkinu.

Brúin yfir Kolgrafardalsá opnar leiðina milli Fláajökuls og jarðarinnar Haukafells á Mýrum.Mynd/Sveitarfélagið Hornafjörður.
Opnun leiðarinnar um Mýrajökla var fagnað um síðustu mánaðamót en svo kallast 22 kílómetra gönguleið milli Skálafells í Suðursveit og Haukafells á Mýrum. Áður var búið að opna gönguleið um Breiðamerkursand. Nánar má fræðast um verkefnið í frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×