Innlent

Halldór harmar að hafa blandast inn í mál Robert Downey: „Ég er sjálfur faðir“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Halldór Einarsson eigandi Henson var einn þeirra þriggja sem skrifuðu umsögn um Robert Downey þegar hann óskaði eftir uppreist æru.
Halldór Einarsson eigandi Henson var einn þeirra þriggja sem skrifuðu umsögn um Robert Downey þegar hann óskaði eftir uppreist æru. Vísir

Þrír menn skrifuðu umsögn um Robert Downey þegar hann óskaði eftir uppreist æru árið 2014. Halldór Einarsson, betur þekktur sem Henson, er einn þeirra en hann segir í samtali við Vísi að hann sé mjög hryggur yfir þessu máli. 

Aðspurður hvort hann þekki vel Robert Downey svaraði Halldór: „Við spiluðum fótbolta saman í gamla daga.“

Halldór vildi ekki tjá sig um það hvort hann hafi vitað hver brot Roberts hefðu verið.

„Þetta er ömurlegt mál og mér finnst mjög sorglegt að hafa blandast inn í þennan harmleik. Ég er sjálfur faðir og mér finnst þetta bara harmleikur. Samúð mín er með því fólki sem varð fyrir þessu.“

Leynd yfir því hverjir mæltu með uppreist æru Robert Downey var afar umdeild. Vísir

Í bréfi sínu til innanríkisráðuneytisins árið 2014 skrifað Halldór meðal annars: 

„Ég hef þekkt Robert frá barnæsku og get ég fullyrt með góðri samvisku, að hann hefur hegðað sér óaðfinnanlega í lífi og starfi frá því, að hann kom úr fangelsi. Á milli okkar er mikil og góð ævavarandi vinátta, traust og trúnaður.“  

Halldór er eigandi Henson sem framleitt hefur íþrótafatnað undir samnefndu merki í tugi ára. Á árum áður lék hann knattspyrnu, meðal annars með meistaraflokki Vals.

Bréf frá Halldóri Einarssyni, Viðari Marel Jóhannssyni og Gauti Elvari Gunnarssyni voru á meðal gagna sem birt voru á vef dómsmálaráðuneytisins fyrr í dag. Gögnin sem Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, lagði fram með beiðni sinni um uppreist æru voru birt í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.