Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, hringdi í Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, og tilkynnti honum að stjórnarsamstarfinu væri lokið skömmu eftir miðnætti. 87 prósent þeirra stjórnarmanna Bjartrar framtíðar sem tóku afstöðu kusu að slíta stjórnarsamstarfinu.
Að neðan má heyra viðtal við Benedikt úr Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann upplifir ekki sama trúnaðarbrest og Björt framtíð eftir samtal sitt við Bjarna Ben í gærkvöldi.
Sjá einnig: Eiginhagsmunir ráðherrans dropinn sem fyllti mælinn
Hann segist ekki hafa upplifað fregnir af því að dómsmálaráðherra hafi tjáð Bjarna í júlí að faðir hans hafi veitt dæmdum barnaníðingi meðmæli sem trúnaðarbrest eins og stjórn Bjartrar framtíðar. Hann hafi rætt málið við forsætisráðherra og af skýringum hans að dæma upplifi Benedikt málið ekki þannig. Hann hafi þó ekkert vitað um samskipti dóms- og forsætisráðherra fyrr en að hann heyrði af þeim í fréttum í gærkvöldi.
Viðreisn sendi frá sér yfirlýsingu í nótt þar sem fram kom að flokkurinn vill kosningar sem fyrst. Eftir átta vikna stapp við að berja saman ríkisstjórnarsamstarf í vor sé það rökréttast að þingheimur endurnýi umboð sitt. Fáir aðrir kostir séu í stöðunni.
Einhver verði að stjórna landinu
Benedikt hló í samtali við Ríkisútvarpið spurður um hvort dagskrá þingsins, þar sem fjallað verður um fjárlög á morgun, komi til með að standast í ljósi tíðinda næturinnar.
„Ég satt að segja veit það nú ekki. Það getur nú verið að menn hafi um annað að ræða núna á eftir. Við skulum sjá til hvað verður úr því en það verður auðvitað að undirbúa fjárlög. Það verður að vera einhver stjórn á landinu,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Vísir fylgist með gangi mála í vaktinni í allan dag.