Innlent

Kysi að setjast í stjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, skrifaði í gestabók á Bessastöðum áður en hann hélt á fund forseta í dag.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, skrifaði í gestabók á Bessastöðum áður en hann hélt á fund forseta í dag. Vísir/Daníel
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagðist ágætlega stemmdur fyrir komandi kosningum eftir fund sinn með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Bessastöðum í dag. Hann sagði flokk sinn ekki myndu fara í stjórn með flokkum sem hefðu „mannfjandsamleg viðhorf“ að leiðarljósi og telur vænlegast að sitja í stjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna.

„Mitt hjarta slær til vinstri,“ sagði Logi á Bessastöðum í dag. Hann sagðist ekki byrjaður að stofna til kosningabandalaga en að helst myndi hann óska sér að setjast í stjórn „undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur frekar en nokkurs annars.“

Útilokar flokka með „mannfjandsamleg viðhorf“ 

Aðspurður hvort Samfylkingin útiloki samstarf við einhvern flokk sagðist Logi ekki myndu fara í stjórn með flokkum sem „setja á oddinn mannfjandsamleg viðhorf.“ Þar sagðist hann enn fremur ekki vera að vísa til neins sérstaks stjórnmálaflokks.

Logi sagðist ágætlega stemmdur fyrir kosningar þrátt fyrir að Samfylkingin hafi beðið afhroð í síðustu kosningum. Hann taldi að sóknarfæri væri fyrir flokkinn sem hefði ágætis málefnaskrá. Logi sagðist vilja að mynduð yrði ríkisstjórn með umburðarlyndi, mannúð og menntamál að leiðarljósi.

Þá vildi Logi ekki hafa stór orð um starfandi starfsstjórn fram að kjördegi, 4. nóvember. Hann sagðist þó hafa samþykkt þá dagsetningu, eini gallinn væri að kosningarnar yrðu þá sömu helgi og tónlistarhátíðin Iceland Airwaves.


Tengdar fréttir

Framsókn gengur tvíefld til kosninga

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fundaði með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag. Hann sagði að ekki hefði verið möguleiki fyrir Framsókn að stíga inn í ríkisstjórn með Viðreisn.

Björt framtíð verður með í starfsstjórn

Hann sagði Bjarta framtíð ekki hafa rætt kosningabandalag við Viðreisn og að þá væri auk þess skrýtin tilhugsun að starfa aftur með Sjálfstæðisflokknum eins og staðan er nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×