Innlent

Sveitarfélögin ekki sammála um akstur næturstrætós um helgar

Atli Ísleifsson skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir, stjórnarformaður Strætó, segir að boðað verði til nýs fundar hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum.
Heiða Björg Hilmisdóttir, stjórnarformaður Strætó, segir að boðað verði til nýs fundar hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum. Vísir/eyþór
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru ekki sammála um að veita auknu fé til reksturs Strætós þannig að hægt verði að stórbæta þjónustuna á næsta ári.

Þetta segir Heiða Björg Hilmisdóttir, stjórnarformaður Strætó, en fulltrúar sveitarfélaganna hittust á fundi á mánudag til að ræða málið. Boðað verður til nýs fundar á næstu dögum.

Stjórn Strætó samþykkti í lok síðasta mánaðar að vagnar myndu ganga til eitt á kvöldin, strætó muni ganga á næturnar um helgar og ekki yrði dregið úr þjónustu yfir sumartímann. Þá ætti leið 6, sem gengur frá miðbæ Reykjavíkur og upp í Mosfellsbæ, að ganga á tíu mínútna fresti á álagstímum, auk þess að Strætó myndi bæta leiðakerfi innan sveitarfélaganna.

Heiða Björg segir að einhver sveitarfélögin hafi viljað annan fund þar sem farið yrði dýpra í málið. „Það var ákveðið að hafa annan fund þar sem við getum komið með betur útfærðar tillögur. Fundurinn verður mjög fljótlega þar sem sveitarfélög eru að ganga frá fjármálaáætlun þessa dagana.“

Hún segist vonast til að ekki þurfi að draga úr þeim tillögum sem stjórn Strætó hefur samþykkt.

„Við vonum ennþá að þetta náist. Við erum að vinna að því að okkar áherslur nái fram að ganga. En auðvitað verða að vera til peningar fyrir því,“ segir Heiða Björg, sem kveðst þó bjartsýn á að samkomulag náist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×