Lífið

Ísland með í FIFA 18

Stefán Árni Pálsson skrifar
Cristiano Ronaldo er framan á leiknum vinsæla.
Cristiano Ronaldo er framan á leiknum vinsæla.
Samningar hafa náðst á milli EA SPORTS™ og KSÍ um að íslenska karlalandsliðið verði með í FIFA 18 sem er einn vinsælasti tölvuleikur í heimi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ.

Þetta eru góðar fréttir fyrir þá tugi þúsunda spilara sem að spila leikinn hér á landi og auðvitað hina fjölmörgu FIFA spilara um allan heim sem hafa hrifist af leik og árangri liðsins undanfarin misseri.

Sena, sem gefur leikinn út á Íslandi, og EA SPORTS hafa af þessu tilefni látið útbúa sérstaka kápu utan um leikinn sem skartar íslensku landsliðstreyjunni. Þessi útgáfa leiksins verður aðeins fáanleg í verslunum á Íslandi. Útgáfudagur FIFA 18 er 29. september.

Guðni Bergsson formaður KSÍ er mjög ánægður með að íslenska landsliðið verði nú í þessum vinsæla leik.

„Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu og tel þetta vera góð tíðindi fyrir alla þá sem spila leikinn hér á landi og í raun um allan heim. Mér finnst þetta jákvætt markaðslega fyrir íslenskan fótbolta, gaman fyrir okkar stuðningsmenn og einnig leikmennina sjálfa,“ segir formaðurinn í tilkynningunni.

Fyrir ári síðan hafnaði KSÍ tilboði tölvuleikjarisans EA Sports um að karlalandsliðið í knattspyrnu yrði meðal landsliða í FIFA 17 og úr varð mikið fjölmiðlamál hér á landi.

Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður KSÍ, sagði að upphæðin sem EA Sports hefði boðið sambandinu hefði verið of lág. Tilboðið hefði hljóðað upp á um eina milljón og KSÍ hefði gert gagntilboð sem hefði verið hafnað.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×