Innlent

Viðreisn fékk milljónir frá Helga

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Helgi Magnússon er einn af stofnendum Viðreisnar og hefur verið áhrifamaður á bak við tjöldin. Vísir/GVA
Helgi Magnússon er einn af stofnendum Viðreisnar og hefur verið áhrifamaður á bak við tjöldin. Vísir/GVA
Fjárfestirinn Helgi Magnússon og félög honum tengd lögðu Viðreisn til 2,4 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi flokksins sem Ríkisendurskoðun hefur birt. Helgi er stærsti einstaki bakhjarl flokksins sem fékk alls rúmar 26,7 milljónir króna í framlög frá einstaklingum og lög­aðilum á stofnári hans.

Athygli vekur að þó nokkrir bakhjarlar styrkja flokkinn um meira en 400 þúsund krónur sem er lögbundin hámarksfjárhæð sem einstakur aðili má styrkja flokka með. Skýringin liggur í því að þar sem um var að ræða fyrsta starfsár flokksins skilgreindi stjórn hans öll framlög sem stofnframlög. Er vísað til þess að í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka sé kveðið á um að framlög, sem veitt eru í beinum tengslum við stofnun stjórnmálasamtaka, megi að hámarki nema sem svarar tvöföldu hámarksframlagi, eða 800 þúsund krónum. Tuttugu félög styrktu flokkinn um 400 þúsund krónur og einn einstaklingur.

Helgi, sem var einn af stofnendum Viðreisnar og áhrifamaður á bak við tjöldin þar frá upphafi, styrkti flokkinn um 800 þúsund krónur persónulega. Félög hans Varðberg ehf. og Hofgarðar ehf. lögðu síðan til 400 þúsund krónur hvort og bein framlög í hans nafni því komin í 1,6 milljónir. Helgi er einn af stærstu hluthöfum N1 í gegnum Hofgarða og er varaformaður stjórnar félagsins. Olíufélagið styrkti Viðreisn um 400 þúsund krónur líkt og Bláa lónið þar sem Helgi er stjórnarformaður og meðal helstu eigenda í gegnum Hofgarða. Alls nema framlög Helga og félaga sem honum tengjast til Viðreisnar því 2,4 milljónum króna eða ellefu prósentum af heildarframlögum til flokksins í fyrra.

Af öðrum bakhjörlum flokksins er náinn viðskiptafélagi Helga, Sigurður Arngrímsson, sem styrkti flokkinn um 1,2 milljónir; 400 þúsund persónulega og annað eins í gegnum félög sín Ursus Maritimus og Saffron Holding.

Eitt framlag vekur þó sérstaka athygli þótt það sé ekki af sömu stærðargráðu en það eru 200 þúsund krónur frá félaginu Miðeind ehf. Það er í eigu fjárfestisins Vilhjálms Þorsteinssonar sem þar til í lok mars í fyrra var gjaldkeri Samfylkingarinnar. Lét hann af störfum þar eftir umfjöllun um tengsl félags í hans eigu við Panama-skjölin.

Viðreisn var rekin með ríflega tíu milljóna króna tapi á stofnárinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×