Innlent

Áætla 1.300 tonn af óseldu lambakjöti í haust

Sæunn Gísladóttir skrifar
Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, telur að minnka þurfi framleiðslu í takt við minni eftirspurn.
Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, telur að minnka þurfi framleiðslu í takt við minni eftirspurn. Vísir/Vilhelm
Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, áætlar að þrettán hundruð tonn af óseldu lambakjöti verði til í haust þegar slátrun hefst. Minnka þurfi framleiðsluna í takt við minni eftirspurn.

Bændur funda með atvinnuveganefnd Alþingis í dag um stöðu sauðfjárræktar. Oddný segist vona að samtökin fái áheyrn og skilning á stöðunni. Það sé mikilvægt að brugðist sé við núna.

„Við erum að leggja fram heildsteypt plan gagnvart stjórnvöldum og höfum verið í viðræðum við ráðuneytið frá því snemma í vor um aðgerðir til að grípa inn í þessa þróun sem er að verða,” segir Oddný.

Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda
Oddný segir að ástandið skýrist ekki af viðvarandi umframframleiðslu.

„Það er ekki búið að vera viðvarandi umframframleiðsla en lokun á mörkuðum vegna bæði þróunar gengis og annarra atvika sem orsaka það að  markaðir lokast. Við þurfum að bregðast við því,” segir Oddný.

„Við erum að leggja fram tillögur sem við viljum að stjórnvöld komi að til þess að forða að hlutir fari mjög illa og greinin verði illa úti í þessari þróun."

Brugðist verður við meðal annars með því að minnka framleiðslu. „Þetta geta verið sársaukafullar aðgerðir, að draga saman, en það er mjög slæmt ef það gerist með einhverju stjórnlausu hruni. Við erum að reyna að koma í veg fyrir þá sóun sem getur fylgt slíkri atburðarrás," segir Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×