Lífið

Fegurðin fundin í ljótleikanum

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Bolli Magnússon leitast í verkefni sínu við að sýna Kópavoginn í nýju og óvæntu ljósi.
Bolli Magnússon leitast í verkefni sínu við að sýna Kópavoginn í nýju og óvæntu ljósi. Vísir/Andri Marínó
„Í sumar var ég í skapandi sumarstörfum í Kópavogi. Verkefni mitt var að taka myndir af Kópavogi. Grunnhugmyndin var sú að fá bæjarbúa til að líta á bæinn sinn öðrum augum og sýna Kópavog í öðru ljósi því að þó að þetta sé ágætis bær er hann almennt ekki talinn neitt sérstaklega fallegur og fólk er ekki mikið að taka myndir hérna. Ég vildi líka gera þetta tímalaust og þess vegna eru allar myndirnar teknar á filmu. Ég gaf svo út tvo stutta ljósmyndabæklinga sem hluta af verkefninu og verð svo með sýningu í Bókasafni Kópavogs frá fimmtánda ágúst til þrettánda september,“ segir Bolli Magnússon, ljósmyndari sem arkaði um Kópavog í sumar og tók myndir af því sem heillaði hann þar í bæ, en það var oftast iðnaður eða einhvers konar niðurníðsla sem varð fyrir valinu. Afraksturinn hefur hann gefið út í tveimur heftum sem nefnast einfaldlega „Kópavogur“.

Hér má líta gullfallega og gríðarlanga blokk.Mynd/Bolli Magnússon
Hvernig ferðu að því að finna fegurðina, eins og þú skilgreinir hana, í Kópavogi og hvar er hana helst að finna?

„Maður þarf í rauninni bara að finna einhverja fegurð í ljótleikanum. Ég vil meina að allt það flottasta séu öll ógeðslegu iðnaðarhverfin – Smiðjuhverfið, Kópavogshöfnin, Auðbrekkan og Hamraborgin er svo algjör gersemi. Ég tók svolítið af myndum þar og það má segja að þetta sé ákveðið stef í verkunum – þetta er iðnaðartengt og mikið af bílum sem eru í niðurníðslu og þannig.“

Þannig að það er niðurníðslan sem er hin raunverulega fegurð Kópavogs – það er enga hefðbundna fegurð þar að finna að þínu mati?

„Já. Það er svo mikill karakter í þessu. Það sem er mest heillandi við Kópavog að mínu mati er hvað þetta er yndislega misheppnaður bær og algjört skipulagsslys.“

Bolli mun sýna myndirnar eins og segir hér að ofan í Bókasafni Kópavogs og hefst sýningin þann fimmtánda. Þar verður hægt að kaupa myndirnar en auk þess er hægt að tryggja sér eintak af bæklingunum hans tveimur en til þess þarf að hafa samband við Bolla.

Finna má myndir eftir Bolla á instagram síðu hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×