Innlent

Segir útsýnissiglingar Akraness ólíkar stífum Þjóðhátíðarsiglingum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, kannast ekki við að gögn um leigu á öðru skipi hafi borist Samgöngustofu.
Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, kannast ekki við að gögn um leigu á öðru skipi hafi borist Samgöngustofu. Samgöngustofa
Samgönguráðuneytinu hefur borist kæra vegna synjunar Samgöngustofu á beiðni um siglingar bátsins Akraness milli lands og Eyja í kringum Þjóðhátíð. Kæran er nú til meðferðar hjá ráðuneytinu. Samskiptastjóri Samgöngustofu segir Akranesi hafa verið veitt sérstakt, tímabundið leyfi til siglinga á milli Reykjavíkur og Akraness. Það þýði þó ekki að skipið sé hæft til að sigla aðrar siglingaleiðir, sérstaklega ef um er að ræða stífar áætlunarsiglingar.

Skipið Akranes hefur siglt í tilraunaskyni á milli Reykjavíkur og Akraness í sumar. Vestmannaeyjabær sótti nýverið um tímabundna undanþágu hjá Samgöngustofu til að fá skipið til siglinga á milli lands og Eyja í kringum Þjóðhátíð en beiðninni var synjað. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sagðist í samtali við Vísi í vikunni eiga erfitt með að skilja forsendur að baki synjuninni þar sem um væri að ræða sambærileg hafsvæði.

Skipið uppfyllti ekki Evrópureglur en fékk undanþágu í tilraunaskyni

Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir að leyfi til tímabundinna siglinga milli Reykjavíkur og Akraness hafi verið veitt á grundvelli ákveðins rökstuðnings. Þá sé hins vegar ekki þar með sagt að skipið sé hæft til að sigla aðrar leiðir.

„Það var veitt heimild fyrir skipið Akranes til að sigla í tilraunaskyni á afmarkaðri siglingaleið milli Reykjavíkur og Akraness í takmarkaðan tíma. Þar þurfti ákveðinn rökstuðning til vegna þess að skipið uppfyllir ekki Evrópureglur sem hafa verið innleiddar í gegnum EES-samninginn,“ segir Þórhildur.

„Engu að síður taldi Samgöngustofa, með þessum ákveðnu forsendum, réttlætanlegt að veita þessa tilteknu heimild. Þar með er skipið ekki orðið hæft til að sigla hvar sem er, þó að það hafi verið talið hæft til að sigla þessa tilteknu siglingaleið. Þannig var það til dæmis ekki metið hæft til að sigla milli lands og Eyja.“



Bæjarstjórinn Elliði Vignisson er ósáttur með synjun Samgöngustofu á beiðni um siglingar skipsins Akraness milli lands og Eyja á Þjóðhátíð.Vísir/Eyþór/Anton Brink
Aðstæður mjög ólíkar á leiðunum tveimur

Þórhildur segir aðstæður á siglingaleiðunum tveimur ólíkar þó að þær flokkist undir sama flokk, hafsvæði C og þá sé ekki heldur um að ræða sömu tegund siglinga, sem er enn annar þáttur í ákvörðun Samgöngustofu.

„Bæði þessi hafsvæði flokkast undir hafsvæði C á þessum árstíma en það er í raun og veru gróf flokkun á aðstæðum. Dæmin hafa sýnt að aðstæður eru mjög ólíkar á milli Reykjavíkur og Akraness annars vegar og milli lands og Eyja hins vegar,“ segir Þórhildur.

„Í annan stað þá eru þessar ferðir milli Reykjavíkur og Akraness, þessar tilraunasiglingar, þær eru meira í ætt við útsýnissiglingar en stífar áætlunarsiglingar.“

Hafa ekki fengið tilskilin gögn frá Vestmannaeyjabæ

Í samtali við Vísi í síðustu viku greindi Elliði Vignisson einnig frá því að Vestmannaeyjabær hefði sent Samgöngustofu erindi um heimild fyrir siglingu báts, af sömu tegund og báturinn Akranes, milli lands og Eyja í kringum Þjóðhátíð. Þórhildur segir Samgöngustofu ekki hafa borist gögn þess efnis.

„Að mér vitandi þá hafa engin gögn borist. Umsókn verður að sjálfsögðu að fylgja gögn um það skip sem um ræðir og að mér vitandi hefur slík umsókn ekki borist.“

Þá segir hún mikilvægt að hafa í huga að lög og reglur séu settar með öryggissjónarmið í huga og máli skiptir að ekki sé slakað á öryggiskröfum.

„Fyrsta og síðasta verkefni Samgöngustofu er að gæta að samgönguöryggi.“

Vísir náði einnig tali af Jóhannesi Tómassyni, upplýsingafulltrúa í samgönguráðuneytinu, en hann staðfesti að kæra Vestmannaeyjabæs vegna úrskurðar Samgöngustofu væri nú til meðferðar hjá ráðuneytinu. Farið verður yfir kæruna í dag og gert er ráð fyrir að niðurstaða muni fást í málinu síðdegis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×