Innlent

Maður féll í Gullfoss: Lögregla segist geta staðfest innan tíðar hver maðurinn er

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður var við Gullfoss í gærkvöldi.
Mikill viðbúnaður var við Gullfoss í gærkvöldi. vísir/magnús hlynur
Leit mun hefjast aftur milli klukkan níu og tíu í dag að manninum sem féll í Gullfoss laust fyrir klukkan fimm í gær. Lögregla telur sig geta staðfest innan tíðar hver maðurinn er.

Ekki er vitað hversu margir munu taka þátt í leitinni í dag. Lögreglan á Suðurlandi óskaði eftir liðsauka í gærkvöldi til þátttöku í dag.

„Svo sjáum við hvað kemur af fólki,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi í samtali við Vísi.

Aðspurður segir Sveinn ekkert nýtt hafa komið í ljós eftir leitina í gærkvöldi.

„Í sjálfu sér ekki. Við erum enn að eltast við þessar vísbendingar sem við vorum með í gær og munum halda því áfram nú fram eftir morgni.“

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út til að leita að manninum auk alls tiltæks liðs lögreglu, sjúkraliðs og björgunarsveita á staðnum. 

Lögregla telur sig vita með nokkurri vissu hver maðurinn er. Hún komst á sporið þegar bílar á svæðinu voru skoðaðir. Nú sé rætt við fólk sem tengist einum tilteknum bíl og er talið að hægt sé að staðfesta hver maðurinn er innan tíðar.

„Við erum ekki komnir með staðfestingu á því. Við erum að fylgja ákveðnum vísbendingum sem við fengum í gærkvöldi, ekkert sem við getum staðfest, ekki að svo stöddu.“

Ekki er talið að hann hafi verið með hópi og þá hefur enginn leitað til lögreglu sem saknar hans.


Tengdar fréttir

Maður féll í Gullfoss

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út eftir að tilkynning barst um að maður hefði verið fallið í Gullfoss nú á sjötta tímanum í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.