Fótbolti

Aron Einar: Fundirnir voru langir en borguðu sig

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson var kóngurinn á miðjunni í leiknum í kvöld
Aron Einar Gunnarsson var kóngurinn á miðjunni í leiknum í kvöld Vísir/Ernir
„Uppleggið virkaði og við fórum vel yfir þá. Fundirnir voru langir, en margborguðu sig í dag,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, eftir sigurinn frækna gegn Króötum á Laugardalsvelli í dag.

„Við hleyptum þeim í fá færi og sem betur fer náðum við að nýta færið í lokin. Við vörðumst gífurlega vel og hleyptum þeim ekkert inn í leikinn.“

„Þeir stjórnuðu leiknum aðeins í byrjun síðari hálfleiks, en við byrjuðum af krafti og létum þá vita að þeir væru komnir á okkar heimavöll.“

Aron Einar segir að þetta sé ekkert nýtt að liðið sýni svona frábæra karakter, en það var mkið undir í þessum leik.

„Þetta hefur alltaf verið karakterslið. Drengirnir vissu það að það var að duga eða drepast. Við vildum ekki tala um það fyrir leik, en ef þeir hefðu unnið þennan leik þá hefðu þeir verið of langt í burtu.“

„Þeir eru ekkert að fara tapa mörgum stigum, en maður getur leyft sér að fagna í kvöld og svo er byrjað að fókusera á Finnland úti. Þetta er galopinn riðill, en erfiður.

Næsti leikur Íslands er í Finnlandi gegn heimamönnum, en við unnum dramatískan sigur á þeim í fyrri leiknum. Aron Einar býst við erfiðum leik.

„Við vorum í vandræðum með Finnland hérna heima og þurfum að eiga toppleik þar til þess að ná þremur stigum þar.“

„Þetta var ótrúlegt eins og vanalega. Við erum búnir að skapa þessa stemningu sjálfir og höfum fengið fólkið með okkur í lið,“ sagði Aron Einar aðspurður út í stuðningsmenn íslenska landsliðsins.

„Stuðningurinn gífurlegur og við finnum fyrir honum. Hrós til stuðningsmanna okkar. Það eru allir í þessu með okkur og við finnum það inni á vellinum,“


Tengdar fréttir

Twitter eftir leik: „Hörður Björgvin axlaði ábyrgð“

Leik Íslands og Króatíu var að ljúka rétt í þessu en Ísland sigraði 1-0. Hörður Björgvin tryggði okkur sigurinn á 90 mínútu. Hér má sjá viðbrögðin á Twitter yfir leiknum en Emil og Hörður voru vinsælir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×