Innlent

Margt á borði Þingvallanefndar sem fundar eftir sjö mánaða hlé

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Bygging salerna er meðal þeirra mála sem bíða nýrrar nefndar. Hefði komið að góðum notum þegar þessi herramaður var á ferð.
Bygging salerna er meðal þeirra mála sem bíða nýrrar nefndar. Hefði komið að góðum notum þegar þessi herramaður var á ferð. vísir/pjetur
Þingvallanefnd sem kjörin var á Alþingi fyrir rúmum mánuði hélt sinn fyrsta fund síðastliðinn mánudag. Var það fyrsti fundur Þingvallanefndar í sjö mánuði eða frá því fyrri nefnd lauk störfum rétt fyrir alþingiskosningar í lok október í fyrra.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks úr Suðurkjördæmi, nýr formaður Þingvallanefndar, segir mörg aðkallandi verkefni bíða.

„Það er ýmis innviðauppbygging og undirbúningur sem þarf til að taka á móti 1,8 milljón ferðamönnum á ári hverju,“ segir Vilhjálmur.

Meðal annars segir Vilhjálmur um að ræða lagningu rafstrengs til að geta byggt upp vatnssalerni við bílastæðin í þinghelginni á Völlunum og endurnýjun vegarins um þjóðgarðinn. „Það þarf að byggja veginn þannig að umferðaröryggi sé tryggt en um leið séu gildi þjóðgarðsins varin og að samfélagið sem býr í návígi við þjóðgarðinn sé líka haft í huga.“

Eftir langt fundarhlé bíða mörg erindi Þingvallanefndar, meðal annars frá aðilum sem vilja bjóða veitingar eða afþreyingarþjónustu í þjóðgarðinum.

„Við þurfum að byrja á að setja okkur inn í það og hvernig það passar inn í stefnumörkun og markmið með þjóðgarðinum,“ segir nýi formaðurinn.

Varaformaður Þingvallanefndar er Theodóra S. Þorsteinsdóttir, alþingismaður Bjartrar framtíðar, úr Suðvesturkjördæmi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×