Innlent

Forsetinn í fótbolta við færeyska krakka

Kristján Már Unnarsson skrifar
Einbeitingin leyndi sér ekki úr andliti forsetans þegar hann beið eftir skoti á markið.
Einbeitingin leyndi sér ekki úr andliti forsetans þegar hann beið eftir skoti á markið. Mynd/Forsetaskrifstofan.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, brá sér í fótbolta með krökkum í Færeyjum í gær. Forsetahjónin heimsóttu þá Argjahamarsskóla, sem er nýjasti og glæsilegasti skóli Þórshafnar. Guðni stóðst ekki mátið þegar hann sá krakkana á gervigrasvellinum við skólann og brá sér í markið. 

Nemendur sýndu einnig dansatriði og sungu. Við það tækifæri tók forseti einnig við flöskuskeyti sem Ævar vísindamaður sendi út í heim frá Íslandi og íslensk fjölskylda fann í Húsavík í Færeyjum eftir að það hafði ferðast 18.000 kílómetra leið, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu forseta Íslands.

Forsetinn fær hrós frá færeyskum krökkum. Hann virðist hafa staðið sig vel.Mynd/Forsetaskrifstofan.
Forsetahjónin hófu gærdaginn á því að sækja stutta bókmenntadagskrá í húsi Williams Heinesens í Þórshöfn og hittu þar nokkra rithöfunda. Þá var haldið í ráðhús bæjarins og rætt við bæjarstjóra og bæjarfulltrúa. 

Forsetinn kynnti sér Orkuveitu Þórshafnar og nágrennis, skoðaði vindmyllugarð og fræddist um metnaðarfullar áætlanir Færeyinga á sviði grænnar orku. Markmið þeirra er að nýta ekki annað en sjálfbæra orku á þurru landi árið 2030.

Við vindmyllugarð í Færeyjum með ráðamönnum orkuveitu Þórshafnar og nágrennis.Mynd/Forsetaskrifstofan.
Í hádeginu sat forseti ásamt fylgdarliði hádegisverð í boði bæjarstjórnar Þórshafnar og heimsótti í kjölfarið stjórnarráðið á Þinganesi og Lögþingið þar skammt frá svo og Ræðisskrifstofu Íslands.

Í gærkvöldi kvöld bauð lögmaður Færeyja, Aksel V. Johannesen, til hátíðarkvöldverðar til heiðurs forseta Íslands og frú Elizu Reid. Hér má lesa ávarp forsetans.


Tengdar fréttir

Forsetahjónin komin í heimsókn til Færeyja

Íslendingar njóta þess að eiga bestu granna í heimi, verða skilaboð forseta Íslands til Færeyinga en Guðni Th. Jóhannesson, og frú Eliza Reed, héldu í dag í fimm daga heimsókn til Færeyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×