
Ekki fengust viðbrögð frá lögreglustjóranum vegna þessara orða þar sem hann er í fríi í útlöndum. „Það er ekki upplifun starfsmanna Isavia að þetta ástand sé ríkjandi,“ segir hins vegar Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.
Guðni segir að á háannatímum og þegar komið hafi til seinkana á flugi sé meira um kvartanir frá farþegum og við því sé reynt að bregðast. Almennt gangi vel að bregðast við mikilli fjölgun farþega.
„Auðvitað er mikið af farþegum á þeim álagstímum sólarhringsins sem stóru flugfélögin fljúga en tekist hefur að dreifa álaginu betur bæði yfir sólarhringinn og árið og er það lykilatriði í að takast á við svona mikla fjölgun farþega á svona stuttum tíma. Enn eru tímabil yfir sólarhringinn, á milli stóru álagspunktanna, þar sem lítið er að gera í flugstöðinni, jafnvel yfir hásumarið,“ segir Guðni.
Þétt og stigvaxandi umferð er nú um Leifsstöð enda dregur að háannatíma ársins í ferðamennskunni. Mikið öngþveiti virðist vera í flugstöðinni á köflum þessa dagana ef marka má lýsingar þeirra sem fara þar um.

Friðrik segir margar vélar hafa lent á stuttum tíma og algert öngþveiti hafi tekið við inni í flugstöðinni þar sem farþegar hafi ýmist reynt að komast inn eða út í vél. Á sama tíma og farþegar hafi mjakast upp stiga hafi flugáhafnirnar skautað fram hjá þvögunni í rúllustiga.
„Einna verst fannst mér að fólk með grátandi börn hafi ekki fengið sérmeðferð og að kallkerfið hafi ekki verið notað til útskýringa og að biðjast velvirðingar á ástandinu. Í ofanálag skilst mér að nýtt færibandasýstem fyrir farangurinn sé síbilandi,“ segir Friðrik.
Þeir sem eru í Ameríkuflugi fara ekki í gegn um landamæraeftirlit hins evrópska Schengen-svæðis. „Við vitum af þessari töf sem getur orðið á leið upp í landamæraeftirlit á háannatímum,“ segir Guðni. Verið sé að stækka landamærasal og fjölgað verði hliðum fyrir landamæraeftirlit. Sett verði upp sjálfvirk landamærahlið eins og þekkist á flugvöllum erlendis.
„Þetta mun tvöfalda afkastagetuna um landamærin og er því verið að taka beint á þessu með framkvæmdunum. Starfsmenn farþegaþjónustu flugvallarins hafa reynt eftir bestu getu að veita upplýsingar og aðstoða farþega þegar tafir hafa orðið og munu gera það áfram,“ segir upplýsingafulltrúi Isavia.