Innlent

Gengið verður ekki fellt og veiðigjöld verða ekki lækkuð

Sveinn Arnarsson skrifar
Benedikt Jóhannesson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Benedikt Jóhannesson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vísir/ernir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að gengið verði ekki fellt fyrir stórútgerðir og veiðigjöld verði heldur ekki lækkuð.

Hún biðlar til fyrirtækja í sjávarútvegi að sýna samfélagslega ábyrgð þar sem þeim er veittur réttur á auðlind þjóðarinnar til reksturs. Fyrirtækin hafi sýnt fram á mikinn hagnað síðustu ár en einnig þurfi að horfa til þess að styrkja byggð á landinu öllu.

„Gengið verður ekki fellt. Það sem skiptir mestu máli er að taka á gjaldmiðlamálum okkar Íslendinga. Við sjáum sama vandann víða um land sem er of sterkt gengi krónunnar.

Við hljótum öll að sjá að það gengur ekki lengur að vera með íslenska krónu. Nú erum við búin að setja á laggirnar starfshóp sem á að skoða þessi mál gaumgæfilega og ég vona að sá hópur vinni hratt og örugglega að lausn á málinu,“ segir Þorgerður Katrín

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, telur stöðu HB Granda og lokun fyrirtækisins á Akranesi sýna svo ekki verði um villst að veiðigjöld á sjávarútvegi séu of há og þau þyrftu að lækka til að tryggja atvinnuöryggi hinna dreifðu byggða. Sjávarútvegsráðherra er ósammála mati hans í þeim efnum. „Það er ekki á dagskrá að lækka veiðigjöldin. Ég er mjög treg til þess,“ segir Þorgerður Katrín. „Við skulum hafa það hugfast að útgerðin var ekki til í að greiða hærri veiðigjöld þegar gengið var veikt. Sanngirni verður að ganga í báðar áttir.“

Ef af ákvörðun HB Granda stendur mun Akraneskaupstaður verða af miklum fjármunum í formi útsvars og afleiddra tekna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×