Innlent

Óheimilt að láta rannsóknarfyrirtæki leita að týndum sjóðum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Deilur hafa staðið yfir í fjölskyldu Júlíusar Vífils Ingvarssonar.
Deilur hafa staðið yfir í fjölskyldu Júlíusar Vífils Ingvarssonar. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis skiptastjóra dánarbús Ingvars Helgasonar og Sigríðar Guðmundsdóttur sé heimilt að veita erlendu rannsóknarfyrirtæki umboð til þess að leita að týndum sjóðum sem kunna að vera í eigu dánarbúsins.



Málið vakti mikla athygli fyrr á árinu þegar systkini Júlíusar Vífils, fyrrum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og Guðmundar Ágústs, fyrrverandi formanns Handknattleikssambands Íslands, komu fram í Kastljósi og báru þá bræður þungum sökum. Telja þau bræðurna hafa falið lífeyrissjóði foreldra þeirra í aflandsfélögum, ekki aðeins frá þeim systkinum heldur frá móður þeirra systkina. Bræðurnir hafna alfarið þessum ásökunum.



Héraðsdómur hafði fallist á kröfu dánarbúsins en tveir af erfingjunum, Júlíus Vífill Ingvarsson og Guðmundur Ágúst Ingvarsson, lögðust gegn því að slík könnun yrði framkvæmd. Var dómi héraðsdóms áfrýjað til Hæstaréttar.



Í dómi Hæstaréttar segir að af gögnum málsins verði ekki ráðið að nokkuð annað liggi fyrir en orðrómur um að Ingvar Helgason hafi átt bankareikninga erlendis þegar hann andaðist á árinu 1999. Þannig virðist ekkert hafa verið upplýst um í hvaða löndum eða bönkum slíkir reikningar gætu hafa verið eða um innstæður á þeim.



Þar segir jafnframt að samkvæmt fundargerðum frá áðurnefndum skiptafundum gerði enginn erfingi kröfu um að skiptastjóri gripi til aðgerða til að kanna þetta frekar. Því hafi skiptastjóri haft engin efni til þess að taka „af sjálfsdáðum ákvörðun um að ráðast á kostnað dánarbúsins í umfangsmikla rannsókn“ sem óljóst sé að skilað gæti árangri.



Dóm Hæstaréttar má sjá hér.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×