Innlent

Engin „missed calls“ frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar vegna sjómannaverkfallsins

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Unnur Brá Konráðsdóttir segist ekki hafa verið með ósvöruð símtöl frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar.
Unnur Brá Konráðsdóttir segist ekki hafa verið með ósvöruð símtöl frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. vísir/ernir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra óskaði ekki eftir því við forseta Alþingis að þing yrði kallað saman vegna fyrirhugaðrar lagasetningar á verkfall sjómanna um helgina. Þetta kom fram í svari Unnar Brár Konráðsdóttur, forseta Alþingis, við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.

„Ráðherra hafði ekki samband við forseta þingsins. Forseti þingsins hefur auk þess engin missed calls á síma sínum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar,“ sagði Unnur Brá og uppskar mikinn hlátur í þingsal.

Frumvarpinu „veifað framan í deiluaðila“

Sigurður Ingi sagði þingmenn hafa verið meðvitaða um að lagasetning væri yfirvofandi. Því sé mikilvægt að fá upplýsingar um hvort sjávarútvegsráðherra hafi farið þess á leit að þing yrði kallað saman.

„Jafnframt vil ég spyrja hæstvirtan forseta, þar sem það hefur komið fram í fjölmiðlum að hæstvirtur sjávarútvegsráðherra hafi verið með í bígerð lagasetningu á sjómenn og jafnvel að hafa haft samband við forseta um að kalla þingið saman um helgina, eða á mánudaginn sem var frí, og hvort slíkt hafi verið. Við erum meðvituð um það að slíkt frumvarp hafi verið til og hafi verið veifað framan í deiluaðila og því held ég að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að vita hvort að til hafi staðið að kalla þingið saman,“ sagði Sigurður Ingi.  

Líkt og fram hefur komið náðu samninganefndir sjómanna og útvegsmanna samkomulagi í kjaradeilu sinni, og samþykktu sjómenn kjarasamninginn um sólarhring síðar. Verkfall sjómanna hafði staðið yfir í tíu vikur og ljóst að lagasetning hafi verið handan við hornið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.