Innlent

Rýna í bréf Umhverfisstofu í dag

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
„Við fáum þetta bréf í hádeginu í dag. Við þurfum að svara því fyrir 7. mars og það er hreinlega ekki búið að taka neina ákvörðun um hvernig því verður svarað,“ segir Kristleifur Andrésson, stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon.

Kristleifur vísar þar til bréfs frá Umhverfisstofnun vegna kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík.

Í bréfinu segir að Umhverfisstofnun áformi að láta fram fara verkfræðilega úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar. Í úttektinni er gert ráð fyrir að orsök og upptök lyktar og mengunar frá verksmiðjunni verði athuguð nánar og úrbætur lagðar fram hvað varðar mengunarbúnað og rekstur.

Stofnunin áformar að þar til úttekt hefur farið fram verði rekstur verksmiðjunnar takmarkaður við einn ljósbogaofn. Hugsanlegt sé að stöðva þurfi rekstur tímabundið til að framkvæma nauðsynlegar úrbætur.

Kristleifur segir einn ljósbogaofn vera í notkun í verksmiðjunni. Þá eigi fyrirtækið eftir að rýna betur í bréfið. Hann segist ekki viss um hvað felist í umræddri takmörkun.

„Við ætlum að funda um bréfið á morgun og rýna um hvað málið snýst og hvaða svör við getum haft fyrir Umhverfisstofnun.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×