Innlent

Fundað vegna sjó­manna­deilunnar í sjávar­út­vegs­ráðu­neytinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Konráð Alfreðsson, Guðmundur Ragnarsson og Jónas Garðarsson úr samninganefnd sjómanna koma til fundar í ráðuneytinu í kvöld.
Konráð Alfreðsson, Guðmundur Ragnarsson og Jónas Garðarsson úr samninganefnd sjómanna koma til fundar í ráðuneytinu í kvöld. vísir/stefán
Uppfært klukkan 23:48: Samkvæmt heimildum Vísis er enn fundað með ríkissáttasemjara í Karphúsinu og má búast við því að fundað verði fram á nótt. Verið er að fara yfir miðlunartillögu sjávarútvegsráðherra sem hún lagði fram á fundum sínum með deiluaðilum í ráðuneytinu í kvöld.

Uppfært klukkan 22:18:
Samninganefndir útgerðarmanna og sjómanna eru nú komnir til fundar við ríkissáttasemjara í Karphúsinu að því er fram kemur á vef Morgunblaðsins.

Uppfært klukkan 21:58: Sjómenn eru nú farnir af fundi ráðherra. Þeir neituðu að tjá sig við blaðamenn sem biðu þeirra fyrir utan ráðuneytið.

Jens Garðar Helgason, formaður SFS, sagði hins vegar í samtali við fréttastofu að annað hvort semji menn í kvöld eða nótt eða þá að það slitni upp úr viðræðunum.

Uppfært klukkan 21:42: Fulltrúar SFS eru nú farnir af fundi ráðherra og funda fulltrúar sjómanna nú inni í ráðuneytinu.

Samninganefnd sjómanna er nú á leiðinni inn til fundar við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegsráðherra, í ráðuneyti hennar. Fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi komu til fundar í ráðuneytinu um klukkan 21 en ekki liggur fyrir hvort að sjómenn muni funda með útgerðarmönnum og ráðherra núna á eftir.

Ekki fæst uppgefið hvað efni fundarins, eða fundanna, er en ætla má að ráðherra leggi fram einhverja tillögu fyrir samninganefndirnar, líkt og hún gerði á fundi með þeim á miðvikudagskvöld.

Verkfall sjómanna hefur nú staðið í tvo mánuði. Samningur milli deiluaðila er í höfn að nær öllu leyti en beðið er eftir útspil ríkisstjórnarinnar sem mun að öllum líkindum hafa úrslitaáhrif á það hvort að samningar náist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×