Innlent

Hafna alfarið bótaskyldu í máli Wilson-hjónanna

Birgir Olgeirsson skrifar
Ferðaþjónustufyrirtækið Mountaineers of Iceland hefur alfarið hafnað bótaskyldu í máli áströlsku hjónanna David og Gail Wilson sem týndust í sjö klukkutíma í vélsleðaferð á vegum fyrirtækisins við Langjökul í byrjun árs.

Þetta staðfestir lögmaður hjónanna, Árni Helgason, í samtali við Vísi. Árni hafði sent Mountaineers of Iceland erindi þar sem óskað var eftir afstöðu fyrirtækisins til greiðslu bóta sem myndi ná yfir tjón hjónanna og miskabætur vegna þeirrar erfiðu reynslu sem þau urðu fyrir.

Árni segir málið í vinnslu og er stefnt á því að taka málið áfram og þá væntanlega með málshöfðun.

David Wilson sagði í samtali við RÚV skömmu eftir þessa raun að hann hefði rekið sig í takka á vélsleðanum sem varð til þess að hann drap á sér. Hann kom vélsleðanum ekki aftur í gang og sagðist ekki hafa fengið leiðsögn í því. Hann reyndi að gera leiðsögumanni viðvart en án árangurs. Þau biðu eftir leiðsögumanni í tvo og hálfan tíma en án árangurs.

David tókst síðan að koma vélsleðanum aftur í gang og reyndu hjónin þá að fylgja vélsleðaslóðinni sem hópurinn hafði skilið eftir sig. Þegar þau komu að klakabunka hvarf slóðin og ákváðu þau þá að grafa sig í fönn.

Voru þau afar reið vegna vinnubragða fyrirtækisins og taldi David réttast að loka því.

Herbert Hauksson, einn eigenda Mountaineers of Iceland, sagði í samtali við Fréttablaðið að ýmislegt hefði verið fært í stílinn hjá hjónunum og sagði þau hafa farið þvert á reglur sem þeim voru kynntar í upphafi ferðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×