Innlent

Hvetja yfirvöld til að endurskoða ákvörðun um brottvísun Amir

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Amir Shokrgozar, hafði búið á Íslandi í tvö ár, þegar honum var vísað úr landi.
Amir Shokrgozar, hafði búið á Íslandi í tvö ár, þegar honum var vísað úr landi. Vísir/Skjáskot/GVA
Stjórn samtakanna SOLARIS, sem eru hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, hvetur íslensk yfirvöld til þess að endurskoða ákvörðun sína um að brottvísa hælisleitandanum Amir Shokrgozar frá Íslandi til Ítalíu og leyfa honum að snúa til baka til Íslands, þar sem hann á heima. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Andri Snær Magnason, rithöfundur, hafði áður vakið athygli á máli Amir, í Facebook færslu frá því fyrr í dag þar sem hann sagði sögu hans.

Þar kom meðal annars fram að Amir flúði heimaland sitt vegna kynhneigðar sinnar, en hann kemur frá Íran þar sem samkynhneigðir geta sætt dauðarefsingu. Hann hafi því flúið í gegnum Tyrkland til Grikklands og til Ítalíu, þar sem hann mátti þola skelfilegt ofbeldi í flóttamannabúðum.

Benti Andri á að hann hefði verið virkur þátttakandi í íslensku samfélagi, síðastliðin tvö ár, en yfirvofandi brottvísun lagðist þungt á Amir.

Sjá einnig: Andri Snær segir sögu hælisleitanda sem vísað var úr landi: „Við erum líka Trump“

Í yfirlýsingu frá SOLARIS segir að það sé óásættanlegt og með öllu ómannúðlegt að yfirvöld hafi sent Amir aftur á þann stað sem hann þurfti að upplifa andlegt og líkamlegt ofbeldi. Amir geti af augljósum ástæðum ekki leitað í flóttamannabúðirnar.

Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að leyfa Amir að koma aftur heim, hann eigi unnusta á Íslandi og hafi meðal annars verið að læra íslensku í Tækniskólanum.

Stjórn félagsins minnir á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kveður meðal annars á um að „hafa skal mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, samanber skyldur í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna.“

Bent er á að undirskriftarsöfnun er hafin, þar sem skorað er á Útlendingastofnun að leyfa Amir að koma heim. Segir í tilkynningunni að því fyrr sem stjórnvöld bregðast við, því minni verði skaðinn fyrir Amir.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.