Innlent

Stór skjálfti í Kötlu í morgun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katla er ein stærsta eldstöð landsins.
Katla er ein stærsta eldstöð landsins. vísir/vilhelm
Jarðskjálfti að stærðinni 3,5 varð í klukkan 07:09 í Kötluöskjunni undir Mýrdalsjökli. Samkvæmt vef Veðurstofunnar voru upptökin vestarlega í öskjunni en í haust var mikil skjálftavirkni í Kötlu og var óvissustigi lýst yfir vegna þess í lok september.

Gunnar P. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, segir að virknin nú sé ekkert í líkingu við það sem var þá og engin merki séu um gosóróa eða neitt slíkt.

„Það hafa verið smá skjálftar fyrir og eftir þennan sem var um sjöleytið í morgun en þeir hafa verið miklu minni, svona í kringum einn að stærð. En það hefur svona verið lífleg skjálftavirkni í Kötlu í allt haust en það er enginn órói, enginn gosórói eða neitt slíkt nú,“ segir Gunnar í samtali við Vísi.

 

Þann 30. september síðastliðinn var lýst yfir óvissustigi vegna mikils óróa í Kötluöskjunni. Því var aflétt um tveimur vikum síðar en meðal annars var lokað fyrir umferð að Sólheimajökli vegna skjálftanna.

Katla er ein af stærstu megineldstöðvum landsins. Hún gaus seinast árið 1918 og því má segja að kominn sé tími á Kötlugos þar sem eldstöðin hefur gosið að meðaltali á 40 til 80 ára fresti.


Tengdar fréttir

Óvissustigi lýst yfir vegna Kötlu

Ríkislögreglustjórinn í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi hefur lýst yfir óvissustigi vegna jarðskjálfta í Mýrdalsjökli




Fleiri fréttir

Sjá meira


×